Hann skallar í öxlina á sér

Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki sínu í kvöld.
Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki sínu í kvöld. mbl.is/Golli

„Ég er sáttur við mína innkomu. Planið er alltaf að koma inn og reyna að breyta leiknum okkur í hag. Sem betur fór tókst það í dag og það er mjög ánægjulegt," sagði Rúrik Gíslason í samtali við mbl.is eftir sigurinn magnaða á Króötum á Laugardalsvelli í kvöld í undankeppni HM í knattspyrnu. 

Rúrik kom inn á þegar skammt var eftir og skoraði Hörður Björgvin Magnússon eina mark leiksins skömmu síðar. 

„Ég er sáttur að hafa fengið að fara inn á og fyrst og fremst er þetta yndisleg tilfinning að vinna þennan leik. Þetta var langur undirbúningur, en á sama tíma rólegur og skemmtilegur. Maður fann á þeim að þeir voru rólegir og svalir yfir þessu, það smitaði út frá sér. Maður er búinn að vera lengi með strákunum fyrir þennan leik og það er ánægjulegt að klára þetta með sigri."

„Mitt hlutverk var að hjálpa Herði fyrst og fremst en á sama tíma að nýta þá sénsa sem kæmu frammi á við og reyna að sprengja þetta upp. Vonandi náði ég að gera það."

„Styrkleikinn okkar er þétti varnarleikurinn okkar og það eru allir með sín hlutverk á hreinu, við erum búnir að vera það lengi saman og það er mikið um endurtekningar og það er ánægjulegt þegar okkar leikskipulag gengur upp."

Hann segir liðið fagna í kvöld en næsta verkefni er ekki síður mikilvægt. 

„Við getum fagnað þessum sigri núna en það er mjög mikilvægur leikur næst. Það er mjög mikilvægt að halda okkur á tánum og förum ekki kæruleysir í þann leik og klúðrum okkar séns. Þetta var frábær sigur en leikurinn geng Finnum úti er ekki síður mikilvægur."

Rúrik sá markið vel og að sjálfsögðu var hann sáttur við það. 

„Hann skallar hann í öxlina á sér, en það er frábært að það séu tvö mörk í tveim leikjum frá bakverði, það er frábært. Það er góð tilfinning fyrir þjálfarana að þeir séu með tvo virkilega góða bakverði. Þetta gerðist svolítið hægt, einhvern veginn var boltinn allt í einu í netinu og það var mjög ánægjulegt," sagði Rúrik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert