Glórulaus ákvörðun og dómarinn glottir á okkur

Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég vil byrja á að óska Víkingum til hamingju með bikarmeistaratitilinn, þegar þú vinnur áttu það sennilegast skilið,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir 1:0-tap gegn Víkingi í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvellinum í dag.

Ólafur var gríðarlega óánægður með þá ákvörðun dómaranna að reka Pétur Viðarsson af velli með beint rautt spjald á 60. mínútu eftir að Pétur virtist stíga á Guðmund Andra Tryggvason.

„Fyrir mér lítur þetta út fyrir að vera glórulaus ákvörðun, algjörlega glórulaus. Að halda því fram að það sé ásetningur þarna, Pétur er að þvæla með boltann og stígur niður. Það vill þannig til að leikmaður Víkings liggur þarna í grasinu en að fjórði dómarinn taki þessa risa ákvörðun er algjörlega út í hött. Og ekki í fyrsta skipti í sumar sem fjórði dómari tekur allt í einu svona ákvörðun,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is eftir leik en Pétur Guðmundsson var aðaldómari og Ívar Orri Kristjánsson fjórði dómari.

Fannst þér dómararnir almennt hafa tök á leiknum?

„Nei, mér fannst það ekki. Ég hef haldið því fram að Pétur sé með okkar betri dómurum og þetta var erfiður leikur að dæma. Vítaspyrnunni er kannski ekki hægt að mótmæla en þetta rauða spjald, það er gjörsamlega með ólíkindum að fjórði dómarinn skuli setja sjálfan sig í þennan fókus og stendur svo og glottir á okkur.“

Þó Ólafur hafi helst verið svekktur út í dómgæsluna viðurkenndi hann að FH-liðið hefði ekki spilað sinn besta leik.

„Þetta voru gríðarlega erfiðar aðstæður til að spila og við lentum undir pressu. Það var erfitt að koma boltanum í burtu og þegar við reyndum að koma honum gagnstætt á Víkingana þá réðum við illa við boltann. Við töluðum um það í hálfleik að það væri ásættanlegt að koma inn með þessa stöðu. Við ætluðum að setja pressu á þá og nýta okkur aðstæðurnar en það var meðal annars slegið úr höndunum á okkur að fá þennan dóm gegn okkur.“

Pétur Viðarsson klappar til stuðningsmanna FH eftir að hafa verið …
Pétur Viðarsson klappar til stuðningsmanna FH eftir að hafa verið rekinn af velli. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert