Með samningstilboð frá Val

Hin 17 ára gamla Ída Marín Hermannsdóttir hefur spilað mjög …
Hin 17 ára gamla Ída Marín Hermannsdóttir hefur spilað mjög vel með Fylki í sumar og skorað sjö mörk í sautján leikjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Ída Marín Hermannsdóttir, leikmaður Fylkis í efstu deild kvenna, er með samningstilboð frá Val samkvæmt heimildum mbl.is. Ída Marín hefur byrjað alla sautján leiki Fylkis í deildinni í sumar þar sem hún hefur skorað sjö mörk en hún verður samningslaus hjá Fylki í október.

Ída Marín er 17 ára gömul en hún hefur verið lykilmaður í liði Árbæinga sem voru nýliðar í deildinni í vor. Fylkiskonur eru í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig þegar ein umferð er eftir af mótinu en liðið mætir Breiðabliki í lokaumferð deildarinnar. Alls á hún að baki 25 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað sjö mörk.

Þá á hún að baki 19 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hún hefur skorað sex mörk. Valskonur eru á góðri leið með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í ellefta sinn en liðið er í efsta sæti deildarinnar með 47 stig og mætir föllnu liði Keflavíkur á Hlíðarenda í lokaumferðinni.

Ída Marín er af miklum knattspyrnuættum en móðir hennar er Ragna Lóa Stefánsdóttir, fyrrverandi þjálfari Fylkis og núverandi aðstoðarþjálfari KR. Ragna Lóa var fyrirliði kvennalandsliðsins en hún lék 35 landsleiki þar sem hún skoraði tvö mörk. Þá er faðir hennar Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði og atvinnumaður, en hann lék 89 landsleiki og skoraði í þeim fimm mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert