2. sæti: Á réttri leið þangað til annað kemur í ljós

Gísli Eyjólfsson á að baki 88 leiki fyrir Breiðablik í …
Gísli Eyjólfsson á að baki 88 leiki fyrir Breiðablik í efstu deild þar sem hann hefur skorað sautján mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sam­kvæmt spá Morg­un­blaðsins og mbl.is endar Breiðablik í öðru sæti úr­vals­deild­ar karla í knatt­spyrnu, Pepsi Max-deild­ar­inn­ar, á kom­andi keppn­is­tíma­bili.

Fimmtán íþróttaf­rétta­menn og leik­lý­send­ur spáðu fyr­ir um lokaröð liðanna og ljóst er að flestir búast við því að Breiðablik geti barist af alvöru um Íslandsmeistaratitilinn í ár. Niðurstaða Blika í fyrra var fjórða sæti eftir sveiflukennt tímabil.

„Síðasta tímabil var klárlega ákveðin vonbrigði og því nokkuð eðlilegt bara að okkur sé spáð öðru sætinu og eitthvað sem við getum vel sætt okkur við,“ sagði Gísli Eyjólfsson í samtali við mbl.is.

„Síðustu vikur hafa farið í að tjasla mönnum saman og eins og staðan er í dag þá held ég bara að það séu allir klárir og tilbúnir í slaginn í fyrsta leik gegn KR.

Það er orðið vel þreytt að þurfa alltaf að vera að stoppa og maður hélt klárlega að þessar pásur væru búnir þegar æfinga- og keppnisbannið skall á í mars.

Okkur gekk hins vegar vel í pásunni, æfðum vel, og vonandi verður tímabilið í ár venjulegt ef svo má segja,“ sagði Gísli.

Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn árið 2010 en liðið hefur verið í toppbaráttu undanfarin ár.

„Það alveg kominn tími á að maður fari að vinna einhverja bikara. Ég held að síðasti bikar sem maður vann hérna á Íslandi hafi verið í 2. flokki en ég vann reyndar sænsku B-deildina með Mjällby 2019 og það má ekki gleymast.

Maður vill fara vinna þann stóra með Breiðabliki og ég held að tímasetningin sé góð núna. Við erum með frábæran hóp og eigum að geta gert alvöruatlögu að titlinum í sumar.“

Óskar Hrafn Þorvaldsson er á leið inn í sitt annað …
Óskar Hrafn Þorvaldsson er á leið inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Blika. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stífur og erfiður vetur

Óskar Hrafn Þorvaldsson er á sínu öðru tímabili í Kópavoginm eftir að hafa tekið við liðinu eftir tímabilið 2019.

„Þetta var smá bras á síðustu leiktíð út af endalausum stoppum. Svo náðum við í raun aldrei neinu almennilegu undirbúningstímabili vegna kórónuveirufaraldursins og það spilaði klárlega inn í.

Veturinn í ár hefur bæði verið stífur og erfiður og ég held að það sé óhætt að segja að hans áherslur og punktar hafi skilað sér vel inn í leikmannahópinn.“

Blikar fengu á sig mörg mörk síðasta sumar eftir að hafa tapað boltanum klaufalega á eigin vallarhelmingi.

„Það þarf bara að koma í ljós hvort við séum búnir að leysa þau vandamál sem komu upp á síðustu leiktíð.

Þangað til við töpum boltanum á hættulegum stað og fáum á okkur mark þá held ég að það sé óhætt að segja að þetta sé allt á réttri leið.

Ég geri alla vega fastlega ráð fyrir því að tímabilið í ár verði betra en í fyrra,“ bætti Gísli við.

Fimm fyrstu leikir Breiðabliks:
2.5. Breiðablik - KR
8.5. Leiknir R. - Breiðablik
13.5. Breiðablik - Keflavík
16.5. Víkingur R. - Breiðablik
21.5. Breiðablik - Stjarnan

Leikir Breiðabliks í Lengjubikarnum í vetur:
Breiðablik - Leiknir R. 4:0
Breiðablik - Þróttur R. 5:0
Breiðablik - ÍBV 2:0
Breiðablik - Fjölnir 3:1
Breiðablik - Fylkir 2:1
Breiðablik - KA 2:1
Flest mörk: Thomas Mikkelsen 3, Viktor Karl Einarsson 3.

Nánar verður fjallað um lið Breiðabliks í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert