Leikur tveggja hálfleika í Árbænum

Kristian Nökkvi Hlynsson sækir að marki Grikkja í Árbænum í …
Kristian Nökkvi Hlynsson sækir að marki Grikkja í Árbænum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn Þórðarson skoraði mark U21-árs landsliðs Íslands í knattspyrnu þegar liðið gerði 1:1-jafntefli gegn Grikklandi í 4. riðli undankeppni EM 2023 á Würth-vellinum í Árbænum í dag.

Leikurinn fór rólega af stað og það tók bæði lið dágóðan tíma að finna taktinn.

Vasilis Sourlis fékk sannkallað dauðafæri fyrir Grikki á 14. mínútu en frír skalli hans úr markteignum fór í slánna og út.

Grikkir hertu tökin eftir þetta og stjórnuðu ferðinni frá A til Ö á meðan íslenska liðið varðist aftarlega á vellinum og gekk illa að halda í boltann.

Mikael Egill Ellertsson átti tvær ágætis marktilraunir um miðjan fyrri hálfleikinn en tókst ekki að hitta markið í hvorugt skiptið.

Á 37. mínútu átti Kolbeinn Þórðarson skot af 30 metra færi sem fór beint á Kostas Tzolakis í marki Grikklands. Tzolakis réði hins vegar ekki við skotið sem fór í gegnum hendurnar á honum og í netið.

Fjórum mínútum síðar átti Kristian Nökkvi Hlynsson frábæra fyrirgjöf frá hægri á Mikael Egil sem var einn í gegn en Tzolakis varði frábærlega frá honum.

Grikkirnir refsuðu íslenska liðinu í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Fotois Ioannidis labbaði fram hjá varnarmönnum Íslands eftir langa sendingu fram völlinn.

Hann lagði boltann snyrtilega fram hjá Elíasi Rafni Ólafssyni í mari íslenska liðsins og staðan því 1:1 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri en Víkingarnir Atli Barkarson og Kristall Máni Ingason áttu báðir ágætis marktilraunir.

Atli Barkarson átti fínt skot sem fór rétt yfir markið og Kristall Máni átti skottilraun sem fór beint á Tzolakis í marki Grikkja.

Hvorugu liðinu tókst hins vegar að koma boltanum í netið í síðari hálfleik og lokatölur því 1:1.

Ísland er með 4 stig í þriðja sæti riðilsins eftir tvo leiki, þremur stigum minna en topplið Kýpur sem hefur leikið þrjá leiki. 

Ísland U21 1:1 Grikkland U21 opna loka
90. mín. Angelos Liasons (Grikkland U21) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert