Valsarar að fá nýjan markvörð

Guy Smit hefur varið mark Leiknismanna í sumar.
Guy Smit hefur varið mark Leiknismanna í sumar. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Hollenski markvörðurinn Guy Smit gengur í raðir Vals og spilar á Hlíðarenda á næstu leiktíð en hann varði mark nýliða Leiknis úr Reykjavík í sumar.

Smit er 26 ára en hann gekk til liðs við Leikni á síðasta ári og hjálpaði liðinu að komast upp í úrvalsdeild. Hann hjálpaði Breiðhyltingum svo að halda sér þar í sumar er Leiknismenn höfnuðu í 8. sæti. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net mun Smit nú hins vegar færa sig um set og ganga til liðs við Val.

Þar fyrir er Hannes Þór Halldórsson sem hefur verið einn besti markvörður deildarinnar sem og íslenska landsliðsins undanfarin ár. Hannes er samningsbundinn Val út næstu leiktíð en hann er orðinn 37 ára gamall og lagði landsliðsskóna á hilluna fyrr í mánuðinum.

Hannes Þór Halldórsson hefur verið markvörður Vals undanfarin þrjú tímabil.
Hannes Þór Halldórsson hefur verið markvörður Vals undanfarin þrjú tímabil. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is