Fer í frí og sé hvað gerist

Arnór í eldlínunni í kvöld.
Arnór í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Sigurðsson lék sinn 21. landsleik er Ísland og Ísrael skildu jöfn, 2:2, í Þjóðadeildinni í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Skagamaðurinn var ósáttur við úrslitin.

„Ég er svolítið pirraður. Við erum á heimavelli og erum betra liðið. Við fáum færin og eigum að klára svona leik,“ sagði hann við mbl.is eftir leik og hélt áfram.

„Mér finnst þeir skora soft mörk. Við eigum ekki að fá á okkur skallamark fyrir framan markið og við eigum að verjast betur í fyrra markinu. Við fáum færin og eigum að klára þennan leik.“

Ísrael jafnaði í 2:2 með umdeildu marki. Markið var að lokum gefið eftir skoðun í VAR, þrátt fyrir slæm sjónarhorn. „Þetta er mjög pirrandi, sérstaklega þar sem það er engin marklínutækni. Þeir virtust ekki vera með 100% sjónarhorn og það er rosalega svekkjandi og pirrandi.“

Arnór Sigurðsson fyrir leikinn í kvöld.
Arnór Sigurðsson fyrir leikinn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór er nokkuð sáttur við þróunina í íslenska liðinu, en liðið hefur gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í Þjóðadeildinni í ár.

„Það eru jákvæðir punktar sem við þurfum klárlega að taka með okkur en svo er aðalpunkturinn að þetta eru leikir sem við eigum að klára. Við erum yfir á móti Ísrael úti og eigum að klára þá heima. Ef við bætum við þessum 5-10 prósentum erum við í góðum málum.“

Arnór var að láni hjá ítalska félaginu Venezia frá CSKA Moskvu í Rússlandi á síðustu leiktíð. Hann fékk hinsvegar lítið að spreyta sig hjá Venezia á leiktíðinni. Hann útilokar ekki að spila með öðru félagi en því rússneska á næstu leiktíð.

„Ég er samningsbundinn Moskvu eins og er, á tvö ár eftir þar. Ég fer í frí núna og sé hvað gerist,“ sagði Arnór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert