Fer frá Breiðabliki til norsku meistaranna

Natasha Anasi á leikvangi Brann í dag.
Natasha Anasi á leikvangi Brann í dag. Ljósmynd/Brann

 Natasha Anasi, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Breiðabliks síðasta árið, er búin að skrifa undir tveggja ára samning við norsku meistarana Brann frá Bergen.

Brann skýrði frá komu hennar til félagsins í dag en samningurinn gildir frá og með 1. janúar og til ársloka 2024.

Natasha er 31 árs gömul og leikur ýmist sem miðvörður eða varnartengiliður. Hún hefur verið búsett á Íslandi í átta ár og lék fyrst með ÍBV í þrjú ár en síðan með Keflavík frá 2017 til 2021. Hún kom síðan til liðs við Breiðablik fyrir síðasta tímabil.

Natasha fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir þremur árum og hefur leikið fimm A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Áður lék hún með 21-árs landsliði Bandaríkjanna.

Brann tryggði sér norska meistaratitilinn annað árið í röð á dögunum en með liðinu leikur landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert