ÍBV tók á móti Selfossi í fyrsta leik sumarsins í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Hásteinsvelli í kvöld. Vindasamt var á vellinum og hafði það töluverð áhrif á leikinn.
Krefjandi aðstæður voru fyrir leikmenn liðanna og alvöru áskorun fyrir markmennina sem gerðu vel í leik kvöldsins. Mbl.is gaf sig á tal við Guðnýju Geirsdóttur, markmann Eyjaliðsins. Ekki var skorað nema eitt mark í leiknum þrátt fyrir nokkur fín færi.
„Mér fannst þetta hörkuleikur. Þetta einkenndist svolítið af Suðurlandsslagnum sem við þekkjum. Þetta var svolítið stál í stál allan leikinn. Hörku leikur og gaman að þessu,“ sagði hún.
Segja má að sjái aðeins á Hásteinsvelli en hann er ekki eins og þegar hann er upp á sitt besta.
„Ég meina, við hverju er hægt að búast þegar að það á að spila á grasi í apríl?“ spurði Guðný glottandi.
Eins og komið var inn á áðan var vindurinn í stóru hlutverki á Hásteinsvelli í kvöld og eðlilegt að búast við að liðið sem spilar með vindi myndi dæla boltanum á markið.
„Mér fannst Selfoss ekki nýta sér vindinn nógu vel í fyrri hálfleik. Ég bjóst við að hafa mun meira að gera í fyrri hálfleik. Við hins vegar náðum að nýta okkur vindinn ágætlega og náðum að láta boltann droppa á bak við vörnina hjá þeim.“
Nú er fyrsta umferðin farin af stað og langt fótboltasumar fram undan. ÍBV var spáð sjöunda sætinu af fjölmiðlum Árvakurs í Bestu deildinni í ár.
„Það kemur svo sem ekkert á óvart. Okkur er yfirleitt spáð svona um miðja deild og frekar neðar heldur en ofar en við tökum bara einn leik í einu og sjáum hvert það leiðir okkur.“
Sumarið byrjar vel hjá Eyjakonum sem taka með sér þrjú stig úr fyrsta leiknum og fá að vera á toppi deildarinnar að minnsta kosti í tæpan sólarhring.