Vinnubrögð Sýnar og KSÍ til skammar

Nik Anthony Chamberlain var öskureiður þegar mbl.is náði tali af …
Nik Anthony Chamberlain var öskureiður þegar mbl.is náði tali af honum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nik Chamberlain, þjálfari kvennaliðs Þróttar úr Reykjavík, er afar ósáttur með þá ákvörðun Sýnar, KSÍ og Íslensks Toppfótbolta um að færa leik liðsins gegn Selfossi í 2. umferð Bestu deildarinnar til fimmtudags.

Til stóð að leikurinn myndi fara fram á Selfossi í gær en honum var frestað vegna veðurs fram til miðvikudags.

Forráðamenn beggja liða fengu svo að vita í dag að leikurinn hefði verið færður til fimmtudags svo hægt væri að sýna hann í sjónvarpinu.

Hóta löngu fjölmiðlabanni

„Þessi vinnubrögð eru til skammar og ég fæ að vita það fyrir klukkutíma síðan að þeir séu búnir að færa leikinn fram til fimmtudagsins,“ sagði Nik í samtali við mbl.is.

„Það stóð til að við myndum æfa í dag, fyrir leikinn á morgun, en þetta setur allan undirbúninginn okkar úr skorðum. Leikmenn Þróttar eru ekki með hundruði þúsunda í laun á mánuði einsg og sumir leikmenn karlamegin.

Þær eru í vinnum, í námi og eiga börn. Þær þurfa frí úr vinnu, þær þurfa að mæta í próf og stundum þurfa þær að redda barnapössun fyrir börnin sín. Svona hringl með leikina okkar setur allt úr skorðum fyrir bæði leikmenn og þjálfara og það versta er að þetta var gert í engu samráði við hvorugt lið.

Hvorki ég, né leikmenn Þróttar munu ræða við fjölmiðlamenn á vegum Sýnar eftir þennan leik og við erum alvarlega að íhuga að ræða ekki við neinn frá þessum miðli eitthvað inn í sumarið,“ bætti Nik við í samtali við mbl.is.

Þróttarar fóru vel af stað í Bestu deildinni og unnu …
Þróttarar fóru vel af stað í Bestu deildinni og unnu sannfærandi 4:1-sigur gegn FH í 1. umferðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert