„Ég myndi helst ekki vilja spila gegn Ísrael“

Åge Hareide.
Åge Hareide. mbl.is/Óttar Geirsson

„Tilfinningin er sú að þetta gæti orðið erfitt andlega fyrir leikmennina,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is.

Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum umspils hinn 21. mars í Búdapest í Ungverjalandi en sigurvegarinn úr einvíginu mætir annaðhvort Bosníu eða Ungverjalandi í úrslitaleik um sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar.

„Ég myndi helst ekki vilja spila gegn Ísrael, óháð hvaða íþrótt og eins og staðan er í dag, en það er mikilvægt að halda pólitík og stjórnmálum aðskildum frá íþróttum að mínu mati,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Þurfa að leggja tilfinningarnar til hliðar

„Við erum ekki að mæta stjórnmálamönnum Ísraels heldur fótboltamönnum frá Ísrael og þannig reyni ég að horfa á þetta. Ég hef mínar tilfinningar gagnvart stríðsástandinu sem geisar fyrir botni miðjarðahafs en ég þarf að leggja þær til hliðar og reyna horfa jákvæðum augum á þennan leik.

Við þurfum allir að leggja tilfinningar okkar til hliðar og einbeita okkur fyrst og fremst að fótboltanum sjálfum. Við erum íslenska karlalandsliðið í fótbolta og við þurfum að fara með það hugarfar inn í leikinn að við ætlum okkur að vinna hann. Það besta sem við getum gert er að vinna Ísrael,“ sagði landsliðsþjálfarinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert