FH fór illa með ÍBV – öruggt hjá Fylki

Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði tvennu fyrir Fylki gegn Keflavík.
Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði tvennu fyrir Fylki gegn Keflavík. mbl.is/Óttar Geirsson

FH vann öruggan sigur á ÍBV, 5:1, þegar liðin áttust við í 2. riðli A-deildar deildabikars kvenna í knattspyrnu í Skessunni í Hafnarfirði í dag. 

Viktorija Zaicikova kom gestunum frá Vestmannaeyjum í forystu strax á fyrstu mínútu.

Á 20. mínútu varð Helena Jónsdóttir, leikmaður ÍBV, fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafnaði þar með metin fyrir FH.

Selma Sól Sigurjónsdóttir kom FH-ingum í forystu á 37. mínútu og Erla Sól Vigfúsdóttir bætti þriðja marki heimakvenna við skömmu fyrir leikhlé.

Eftir rúmlega klukkutíma leik varð Guðný Geirsdóttir, markvörður ÍBV, fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan orðin 4:1.

Hin 15 ára gamla Hildur Katrín Snorradóttir rak svo smiðshöggið með fimmta marki FH fimm mínútum fyrir leikslok.

FH er í öðru sæti 2. riðils með sex stig eftir tvo leiki líkt og topplið Þórs/KA, sem er með betri markatölu.

ÍBV er á botninum án stiga eftir tvo leiki.

Guðrún Karítas með tvennu

Í 1. riðli mættust Keflavík og Fylkir í Reykjaneshöllinni. Höfðu Árbæingar að lokum öruggan sigur, 4:1.

Öll mörkin komu í síðari hálfleik þar sem Guðrún Karítas Sigurðardóttir braut ísinn fyrir gestina úr Árbænum á 57. mínútu. Hún var svo aftur á ferðinni á 81. mínútu.

Sara Dögg Ásþórsdóttir bætti við þriðja markinu á 88. mínútu og þremur mínútum síðar bætti systir hennar, fyrirliðinn Eva Rut Ásþórsdóttir, við fjórða marki Fylkis.

Melanie Rendeiro skoraði sárabótamark fyrir Keflavík úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Breiðablik fékk Tindastól í heimsókn á Kópavogsvöll og hafði betur, 2:1.

Markalaust var í leikhléi en  hin 18 ára gamla Vigdís Lilja Kristjánsdóttir braut ísinn fyrir Blika eftir klukkutíma leik.

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir tvöfaldaði svo forystuna rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Hin 16 ára gamla Elísa Bríet Björnsdóttir minnkaði muninn fyrir Tindastól og þar við sat.

Fylkir er í öðru sæti 1. riðils með 4 stig eftir þrjá leiki og Breiðablik er sæti neðar með þrjú stig eftir einn leik.

Tindastóll er í fjórða sæti með 1 stig eftir tvo leiki og Keflavík vermir botninn án stiga eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert