3. umferð: Tímamót hjá Nikolaj og Viktori - besta hjá ÍA í 28 ár

Nikolaj Hansen í leiknum gegn Breiðabliki í gærkvöld þar sem …
Nikolaj Hansen í leiknum gegn Breiðabliki í gærkvöld þar sem hann skoraði sitt 50. mark í deildinni. mbl.is/Óttar

Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings, skoraði tímamótamark í gærkvöld þegar hann kom Víkingi í 2:0 gegn Breiðabliki í stórleik 3. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu. Víkingar unnu leikinn 4:1.

Nikolaj skoraði þar sitt 50. mark í deildinni í 140 leikjum. Þar af var 46. markið í 127 leikjum fyrir Víking en áður hafði danski framherjinn skorað fjögur mörk í 13 leikjum fyrir Val í deildinni. Nikoaj er markahæsti leikmaðurinn í sögu Víkings í efstu deild og hann er einnig sá áttundi leikjahæsti.

Nikolaj er sjötti erlendi leikmaðurinn sem nær að skora 50 mörk í efstu deild og í heildina 62. leikmaðurinn frá upphafi sem nær þeim áfanga. Erlendu leikmennirnir með 50 mörk og meira eru þessir:

101 Steven Lennon
100 Patrick Pedersen
  57 Gary Martin
  53 Sinisa Kekic
  52 Mihajlo Bibercic
  50 Nikolaj Hansen

Viktor Jónsson, framherji Skagamanna, lék sinn 100. leik í efstu deild þegar ÍA vann stórsigur á Fylki, 5:1. Viktor hélt upp á það með því að skora eitt markanna og hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með fjögur mörk í þremur fyrstu umferðunum. Leikirnir hundrað eru 57 fyrir ÍA og 43 fyrir Víking í Reykjavík.

Vestramenn fögnuðu sögulegum sigri gegn KA.
Vestramenn fögnuðu sögulegum sigri gegn KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Vestri vann sinn fyrsta leik í efstu deild, 1:0 gegn KA á Akureyri. Þetta er jafnframt fyrsti sigurleikur Vestfjarðaliðs í deildinni í 41 ár. Síðasti sigur kom 15. júní árið 1983 þegar ÍBÍ vann Skagamenn 1:0 á Ísafjarðarvelli en þar skoraði Jóhann Torfason sigurmarkið eftir sendingu Jóns Oddssonar.

Besta hjá ÍA í 28 ár

Skagamenn hafa skorað flest mörk allra í fyrstu þremur umferðunum, níu talsins. Þetta er í fyrsta sinn í 28 ár sem ÍA skorar svona mörg mörk í fyrstu þremur leikjunum á tímabili, eða síðan liðið skoraði ellefu mörk í fyrstu þremur umferðunum árið 1996.

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, er eini þjálfarinn í Bestu deildinni sem hefur stillt upp sama byrjunarliði í fyrstu þremur umferðum deildarinnar.

Oliver Ekroth, miðvörður Víkings, er á leið í bann vegna fjögurra gulra spjalda þó aðeins þrjár umferðir séu búnar af deildinni. Ekroth hefur fengið gula spjaldið í öllum þremur leikjum Víkings og líka gegn Val í Meistarakeppni KSÍ en spjöldin úr þeim leik teljast með Íslandsmótinu.

Freyr Sigurðsson fagnar ásamt Fred Saraiva og Kennie Chopart eftir …
Freyr Sigurðsson fagnar ásamt Fred Saraiva og Kennie Chopart eftir að hafa skorað sigurmark Fram gegn KR. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

Freyr Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild, í fyrsta leiknum í byrjunarliði í deildinni, og það reyndist sigurmark Fram gegn KR, 1:0. Freyr er 18 ára Hornfirðingur sem skoraði tvö mörk í 19 leikjum fyrir Sindra í 2. deild í fyrra en tímabilið 2022 lék hann með Mána í 4. deild.

Þrír aðrir leikmenn skoruðu sitt fyrsta mark í deildinni í 3. umferð. Hinrik Harðarson, sem kom til ÍA frá Þrótti R., skoraði í 5:1 sigrinum á Fylki. Theodór Óskarsson skoraði mark Fylkis í þeim leik, í sínum öðrum leik í efstu deild, og danski miðvörðurinn Jeppe Gertsen skoraði sigurmark Vestra gegn KA.

Stefán Gísli Stefánsson og Aron Snær Guðbjörnsson úr Fylki og Breki Ottósson úr HK spiluðu sinn fyrsta leik í efstu deild í 3. umferðinni.

Úrslit­in í 3. um­ferð:

Stjarn­an - Valur 1:0
HK - FH 0:2
KR - Fram 0:1
KA - Vestri 0:1
ÍA - Fylkir 5:1
Víkingur R. - Breiðablik 4:1

Marka­hæst­ir í deild­inni:
4 Vikt­or Jóns­son, ÍA
2 Ari Sigurpálsson, Víkingi R.
2 Atli Sig­ur­jóns­son, KR

Næstu leik­ir:
28.4. Vestri - HK
28.4. ÍA - FH
28.4. Víkingur R. - KA
28.4. KR - Breiðablik
29.4. Valur - Fram
29.4. Fylkir - Stjarnan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert