Lykilmaður Svía fer ekki í leikbann

Jim Gottfridsson.
Jim Gottfridsson. AFP

Aganefnd evrópska handknattleikssambandsins, EHF, á Evrópumóti karla í handknattleik hefur ákveðið að Svíinn Jim Gottfridsson taki ekki út leikbann en hann fékk beint rautt spjald fyrir brot á leikmanni Norðmanna í viðureign liðanna í milliriðlinum í gærkvöld.

Þar með er Gottfridsson klár í slaginn í leiknum gegn Dönum í undanúrslitunum á morgun en hann er einn af lykilmönnum sænska landsliðsins og hefur spilað gríðarlega vel á Evrópumótinu. Hann hefur skorað 20 mörk og gefið 19 stoðsendingar.

Gottfridsson fékk rauða spjaldið sex mínútum fyrir leikslok en dómararnir vildu meina að hann hafi slegið Sander Sagosen í andlitið eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi. Gottfridsson sagði eftir leikinn að hann hafi ekki farið með höndina í andlit Sagosen.

mbl.is