Mest seldu leikjatölvur allra tíma

PlayStation 2.
PlayStation 2. THOMAS PETER

Flestir hafa á einhverjum tímapunkti átt leikjatölvu eða spilað á slíka. Fyrsta leikjatölvan kom út árið 1972, en það var Magnavox Odyssey-tölvan. Síðan þá hafa reglulega verið gefnar út nýjar leikjatölvur en þær hafa verið misvinsælar.

Margar þeirra leikjatölva sem komið hafa á markaðinn hafa selst í tugmilljónum eintaka, á meðan aðrar hafa selst illa. Listi hefur verið tekinn saman af mest seldu leikjatölvunum, en birtist hann hér í öfugri röð. 

10. sæti – Xbox One

41 milljón eintaka hafa selst af Xbox One, sem gefin var út af Microsoft árið 2013.

Xbox One.
Xbox One. Skjáskot/youtube.com/GameSpot

9. sæti – Super Nintendo

Tölvan var gefin út árið 1990 og seldist í 49,1 milljón eintaka, en talið er að Nintendo hafi með útgáfu tölvunnar endurvakið markað leikjatölva. Í kjölfar útgáfu tölvunnar fóru fleiri útgefendur að vinna að því að gefa út nýjar leikjatölvur.

Super Nintendo.
Super Nintendo. Skjáskot/youtube.com/mdftrasher

8. sæti  Nintendo Entertainment System

Leikjatölvan Nintendo Entertainment System, einnig þekkt sem NES, var gefin út árið 1983 og seldist í 61,91 milljón eintaka. Útgáfa leikjatölvu NES er talin hafa komið tölvuleikjum á hærra stig og markað nýtt upphaf á því sviði. 

7. sæti  Nintendo Switch

Þrátt fyrir að sitja aðeins í sjöunda sæti listans, með 84,59 milljón seld eintök, er líklegt að sölutölur þessar munu hækka á næstunni. Nintendo Switch var gefin út árið 2017 og er enn í sölu, og ekki lítur út fyrir að þeirri sölu ljúki á næstunni. 

Nintendo Switch.
Nintendo Switch. Skjáskot/youtube.com/DetroitBORG

6. sæti  Xbox 360

Mest selda leikjatölva Microsoft, Xbox 360, hefur selst í 85,5 milljónum eintaka. Tölvan kom út árið 2005, en nýjungum var bætt við tölvuna fimm árum eftir að hún var fyrst gefin út, sem talið er hafa hækkað sölutölur hennar. 

5. sæti  PlayStation 3

Seld í 86,9 milljónum eintaka, er PlayStation 3 samt sem áður verst selda tölva útgefandans SONY. Tölvan var gefin út árið 2006 en aðrar útgáfur PlayStation stóðu sig mun betur ef marka má sölutölur.

4. sæti  Nintendo Wii

Leikjatölva Nintendo Wii kom út árið 2006 var seld í 101,53 milljónum eintaka. Er tölvan var fyrst kynnt vöknuðu efasemdir í garð hennar vegna hreyfistýringar sem notast er við, en þær hurfu fljótt er tölvan kom út og naut hún gríðarlegra vinsælda.

Wii-leikjatölvan.
Wii-leikjatölvan. nintendo.com

3. sæti  PlayStation

Fyrsta PlayStation-tölvan kom út árið 1994 og seldist í 104,25 milljónum eintaka. Tölvan er talin hafa breytt tölvuleikjum til frambúðar, en í kjölfar útgáfu hennar fóru aðrir útgefendur að vinna að því að hanna svipaðar leikjatölvur.

Fyrsta PlayStation leikjatölvan sem gefin var út.
Fyrsta PlayStation leikjatölvan sem gefin var út. Skjáskot/youtube.com/VHSkanal1

2. sæti  PlayStation 4

Selst hafa 115,4 milljónir eintaka af PlayStation 4-tölvunni, sem gefin var út árið 2013. Tölvan var gefin út á svipuðum tíma og Nintendo Wii og Xbox One, en samkvæmt sölutölum naut hún mestra vinsælda meðal þeirra, og gerir enn.

1. sæti  PlayStation 2

Á toppi listans er PlayStation 2, sem seldist í 157,68 milljónum eintaka. Tölvan var fyrst gefin út árið 2000. Á þeim tíma voru myndgæði tölvunnar betri en áður hafði sést í leikjatölvum, ásamt því að PlayStation 2 var eina leikjatölvan sem hafði innbyggðan DVD-spilara sem vakti mikla lukku meðal aðdáenda. 

PlayStation 2.
PlayStation 2. Skjáskot/youtube.com/PlayStation

Tölurnar gætu hækkað

Greinilegt er að PlayStation-tölvurnar hafa notið mestra vinsælda í gegnum tíðina og ætla greinilega að halda því áfram. Taka verður fram að einhverjar þessara tölva eru enn í sölu og geta þessar tölur því hækkað eftir að listinn hefur verið gefinn út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert