Millifærði 350.000 á Píeta Samtökin

Óla Blöndal, einnig þekkt sem olalitla96.
Óla Blöndal, einnig þekkt sem olalitla96. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Streymirinn Óla Blöndal blés til góðgerðastreymis fyrr í vikunni þar sem hún streymdi og skemmti áhorfendum til styrktar Píeta Samtökunum.

Í lok streymis hafði Óla safnað 350.000 krónum með hjálp áhorfenda og rann allur ágóðinn beint í sjóð Píeta Samtakanna.

Streymt og skemmt í sólarhring

Streymið hófst í hádeginu á miðvikudaginn og stóð það yfir í heilan sólarhring. Við komu ýmsir gestir á meðan streyminu stóð og eins seldi Óla málverk sem hún hafði málað sjálf.

Áhorfendur fengu jafnframt fjölda fjölbreyttra vinninga frá styrktaraðilum streymisins. En auk heimsókna og vinninga voru spilaðir tölvuleikir með áhorfendum, tekið á áskorunum og spjallað mikið. 

Þakklát og stolt

Snemma í morgun birti Óla skjáskot á Tölvuleikjasamfélaginu sem sýnir frágengna millifærslu til Píeta Samtakanna en hún hljóðaði upp á 350.000 krónur.

„Takk kærlega fyrir öll sem komu við á Charity-streyminu! Við náðum að safna 350 þúsund krónum fyrir Píeta Samtökin,“ segir Óla í færslunni og bætir við að hún sé svo stolt og afar þakklát fyrir þetta.

Hægt er að horfa á endursýningu af streyminu á Twitch-rás Ólu eða hér að neðan.

mbl.is