Ný stikla staðfestir útgáfudag Overwatch 2

Tölvuleikurinn Overwatch hefur notið gífurlegra vinsælda á meðal tölvuleikjaspilara jafnt sem rafíþróttamanna. Um nokkurn tíma hafa aðdáendur beðið spenntir eftir framhaldsleiknum Overwatch 2, sem fór í beta-spil fyrir tveimur mánuðum síðan.

Aðdáendum til mikillar gleði hefur útgáfudagur Overwatch 2 nú verið gefinn upp, og verður hann aðgengilegur til spilunar á Xbox, PlayStation, Nintendo Switch og PC-tölvum.

Í haust, þann 4. október, kemur leikurinn út í forútgáfu en ólíkt fyrri leiknum verður Overwatch 2 fríspilunarleikur.

Gerir leikinn aðgengilegri

„Í grunninn, trúum við að leikurinn sé félagsleg upplifun sem ætti að deila með öllum. Þessi breyting yfir í fríspilun mun gera heim Overwatch aðgengilegri miklu fleira fólki en áður,“ segir um breytinguna á heimasíðu Overwatch.

„Með því að fjarlægja allar hindranir og gera það auðveldara en áður að stökkva í bardaga með vinum sínum í fljótu bragði.“

Dularfullur refur stekkur í bardaga

Á Xbox og Bethesda-kynningunni sem fór nýlega fram, sýndu þróunaraðilar aðeins frá leiknum og hvers má vænta af honum með kynnningarstiklua. Stikluna má sjá hér að ofan.

Þá var sýnt frá nýju hetjunni Junker Queen ásamt öðrum kunnulegum hetjum sem hafa „þroskast og stækkað í gegnum árin“. 

Með Overwatch 2 koma nýjar hetjur, kort og leikhamir en þar að auki var strítt frá dularfullum ref í stiklunni. Refurinn stekkur inn í bardaga og leiðir teymið sitt inn í bardaga, en óvíst er hvað það þýðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert