Hátt í 70 stelpur lönuðu í Kópavogi

Frá kvennakvöldi Babe Patrol í Arena.
Frá kvennakvöldi Babe Patrol í Arena. Ljósmynd/Arena/Ágúst Wigum

Strákar voru bannaðir í rafíþróttahöllinni Arena síðastliðinn fimmtudag á meðan kvennakvöldi stelpnanna í Babe Patrol fór fram.

Í samtali við mbl.is segir Eva Margrét, hluti af fjóreykinu Babe Patrol og jafnframt nýkjörinn formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, að kvöldið hafi gengið vonum framar. 

Okkar eigið kvöld í friði

Um 70 stelpur sóttu kvennakvöldið sem kom fjóreykinu mjög á óvart þar sem þær voru aðeins að reikna með um 30 stelpum í heildina.

Frá kvennakvöldi Babe Patrol í Arena.
Frá kvennakvöldi Babe Patrol í Arena. Ljósmynd/Arena/Ágúst Wigum

„Við fundum hvað þetta var allt önnur upplifun en „venjulegt kvöld“, þetta var einhvern veginn bara okkar eigið kvöld sem við áttum í friði,“ segir Eva og bætir við að þær hafi verið í skýjunum eftir kvöldið, í raun hálf meyrar.

Á kvennakvöldinu var spilaður spurningaleikur, dregið úr happadrætti og um 70 stelpur borðuðu, drukku, hlógu og spiluðu saman tölvuleiki.

Tengslanet íslenskra kvenna sterkara

Eva segir félagslegi þátturinn standa upp úr og telur tengslanet íslenskra kvenna í tölvuleikjum hafa styrkst til muna eftir þetta kvöld.

„Stelpur sem höfðu aldrei hist áður voru farnar að spila og spjalla saman,“ segir Eva og bætir við að fjölmargar stelpur sem þær töluðu við hafi hvatt þær til að halda annað sambærilegt kvöld sem fyrst.

„Við þurftum svo sannarlega á þessu stelpukvöldi að halda.“

Aðspurð segir Eva að það sé alveg öruggt að þær muni halda annað slíkt kvöld og að þær gæti jafnvel haldið svokallað Babe Patrol-kvöld þar sem allir væru velkomnir, þá strákar líka.

Stelpurnar í Babe Patrol héldu kvennakvöld í Arena sem gekk …
Stelpurnar í Babe Patrol héldu kvennakvöld í Arena sem gekk vonum framar. Ljósmynd/Arena/Ágúst Wigum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert