Playstation kynnir til leiks handhæga leikjatölvu

Tölvan verður nauðalík fjarstýringunni á Playstation 5 nema með viðbótum.
Tölvan verður nauðalík fjarstýringunni á Playstation 5 nema með viðbótum. Skjáskot/Playstation

Tæknirisinn Sony kynnti í gær á kynningarfundi Playstation tölvu sem hægt verður að nota til þess að spila tölvuleiki á ferðalagi eða annars staðar en heima hjá sér.

Sony virðist með þessu ætla að reyna að fara í samkeppni við leikjatölvur á borð við Nintendo Switch og Steam Deck. Jim Ryan, forstjóri Playstation, sýndi tölvuna í gær en verkefnið ber titilinn „Project Q“.

Tölvan gerir spilurum kleift að streyma leikjum úr Playstation 5 leikjatölvunni yfir í tölvuna með hjálp Remote Play, sem tengir tölvurnar saman. Spilarinn þarf þó að vera búinn að niðurhala þeim leikjum sem hann vill spila á Playstation 5 tölvuna.

Tölvan mun líta út eins og Playstation 5 fjarstýring nema á milli stýripinnanna er 8 tommu skjár. Þetta er ekki fyrsta handhæga Playstation tölvan en áður fyrr var hægt að kaupa tölvurnar Playstation Portable og Vita og taka þær með í  ferðalagið.

Hægt er að búast við fleiri upplýsingum um tölvuna á næstu mánuðum.

mbl.is