Kvörtuðu yfir lélegum búnaði

Rafíþróttamaðurinn Ax1Le.
Rafíþróttamaðurinn Ax1Le. Skjáskot/Liquipedia

Leikmenn Counter-Strike liðanna FaZe Clan og Cloud9 hafa kvartað undan lélegum búnaði á æfingarsvæði liðanna fyrir mótið BLAST Premier Spring Final sem hefst í dag.

Rafíþróttamaðurinn Ax1Le sagði á Twitter-síðu sinni að skjáirnir sem þeir fengu að nota hafi verið lélegri og önnur gerð en þeir skjáir sem notaðir eru í keppni og tók rafíþróttamaðurinn ropz undir þau orð og sagði einnig að litirnir í skjánum væru mismunandi. Rafíþróttamennirnir söknuðu þó helst möguleikans að kveikja á hugbúnaðinum „DyAC“ sem hjálpar mörgum að sjá andstæðinga betur. 

BLAST Premier Spring Final mótið er síðasta stórmótið fyrir sumarfrí og tækifæri fyrir marga spilara að eiga fast sæti í liðunum áður en haldið verður yfir í nýjan leik, Counter-Strike 2. Liðið sem sigrar fær einnig þátttökurétt á BLAST Premier World Final sem haldið verður í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert