Sú besta segir skilið við landsliðið

Ada Hegerberg í baráttu við Line Jensen í leik Danmerkur …
Ada Hegerberg í baráttu við Line Jensen í leik Danmerkur og Noregs á EM. AFP

Ada Hegerberg, ein besta knattspyrnukona Norðmanna undanfarin ár, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í landsliðið og hún er þar af leiðandi ekki í norska landsliðshópnum sem tilkynntur var í dag fyrir leikinn gegn N-Írum í undankeppni HM sem fram fer í næsta mánuði.

Í yfirlýsingu sem Hegerberg sendi frá sér segir meðal annars:

„Ákvörðunin um að taka mér frí frá landsliðinu var erfið en er rétt að mínu mati. Ég tek ekki þessa ákvörðun bara vegna Evrópumótsins heldur er hún byggð á reynslu minni með landsliðunum í nokkuð langan tíma. Ég ætla að eyða allri orku minni með Lyon þar sem ég get þróað mig sem leikmann.“

Hegerberg, sem var útnefnd besta knattspyrnukona heims tímabilið 2015-16, náði sér ekki á strik með norska landsliðinu á Evrópumótinu í Hollandi í síðasta mánuði en Norðmenn komust ekki upp úr riðli sínum á mótinu.

Martin Sjögren, þjálfari norska landsliðsins, segir að ákvörðun Hegerberg hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti og segist hann vera mjög vonsvikinn með þessa ákvörðun leikmannsins.

Hegereberg er 22 ára gömul. Hún á að baki 57 landsleiki og hefur í þeim skorað 36 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert