Var bara búið í hálfleik

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar
Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar Ljósmynd/Sigfús Gunnar
Afturelding mátti þola ansi stórt tap gegn Val í öðrum leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í handbolta. Eftir tapið er staðan 1:1 í einvíginu en liðin mætast aftur á sunnudag í Mosfellsbæ. Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var að vonum ekki kátur með leik sinna manna. Við spurðum Gunnar út í leikinn.

Þetta var ansi stórt tap gegn Val í kvöld ekki satt?

"Já þetta var bara búið í hálfleik. Við náum ekki að hlaupa með þeim í fyrri hálfleik. Það er erfitt að útskýra þetta eitthvað náið. Þeir voru bara betri á öllum sviðum leiksins og við bara brotnum. Saga leiksins er kannski sú að við erum að fá fín færi en Björgvin Páll er að verja vel en það á ekki að kosta okkur mark í bakið í hvert einasta skiptið en það gerði þaði í kvöld."

Það er jafnræði fyrstu 10 mínúturnar og munurinn aldrei meiri en eitt mark. Síðan skilja leiðir. Það sem ég tek eftir er að Afturelding fer þá að fara ansi illa með færin sín. Hvernig brotnar lið svona eftir að hafa unnið þá í síðasta leik? Var þetta taugatrekkingur?

"Erfitt að útskýra en vandamálið er þetta: Eitt er að klúðra færum en hitt er, það sem við gerðum miklu betur í síðasta leik, að keyra til baka í vörnina. Þeir skora 9 af fyrstu 11 mörkum sínum úr hraðaupphlaupum og hröðum sóknum. Við náum ekki að hlaupa eins og við ætluðum. Við náum ekki að framkvæma þennan leik eins og planið var. Þetta var bara algjör off dagur hjá okkur sama hvernig á það er litið. og þeir betri á öllum sviðum."
Afturelding réði ekkert við Valsmenn í kvöld
Afturelding réði ekkert við Valsmenn í kvöld mbl.is/Arnþór Birkisson


Var þetta of langt frí milli leikja?

"Nei engar afsakanir. Nei alls ekki. Staðan í þessun einvígi er bara 1:1 og þetta er bara rétt að byrja. Það skiptir engu máli hvernig leikirnir tapast eða vinnast. Við unnum fysta leik og þeir annan leik. Svo er bara leikur númer þrjú á sunnudag. Sem betur fer er stutt í næsta leik. Það hefði verið agalegt að fara í lengra frí eftir þessa frammistöðu. Við mætum á sunnudag og sínum úr hverju við erum gerðir og bara 1:1 og áfram gakk!"

Er það rétt greining hjá mér að hraði Valsmanna hafi verið ykkar banabiti í dag?

"Þeir drepa okkur á hraðanum í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náðum þeim bara ekki í keyrslunni til baka."

Hvað þarf til að stoppa hraða Valsmanna?

"Við þurfum að hlaupa meira, hraðar og leggja fyrr af stað. Við ætluðum að gera þetta allt öðruvísi en náðum ekki að framkvæma það. Það vantaði kannski bara 1% til að ná þessu í fyrri hálfleik en svona gæðalið refsa bara. Við sýndum í leik númer eitt að við hlupum miklu fyrr til baka og vörðumst hraðaupphlaupunum miklu betur."

Þorsteinn Leó fær slink á sig í síðari hálfleik og stuttu síðar fer hann útaf. Er það útaf því að hann var tæpur eða fórstu bara að hvíla og kastaðir inn handklæðinu?

"Hann er tæpur á öxl og við vorum að reyna vera skynsamir líka. Hann er tæpur og það er engin lygi. Engin afsökun fyrir hann en við rúlluðum á liðinu og menn voru ekki að finna sig og þá reyndum við að finna aðra. Þetta var bara svona dagur þar sem ekkert gekk upp hjá okkur og á móti svona liði þá lítur það bara hræðilega út."

Hvað þarf Afturelding að gera til að komast aftur í einvíginu?

"Við þurfum bara að mæta á sunnudaginn og svara fyrir þetta og sýna úr hverju við erum gerðir. Við þurfum ekkert kraftaverk. Við erum búnir að vinna Val tvisvar í síðustu þremur leikjum. Við náðum ekki okkar leik í dag. Nú er bara að þjást í einn dag og svo er nýr dagur á morgun og undirbúningur hefst. Við mætum á okkar heimavöll og svörum fyrir þetta í næsta leik." Sagði Gunnar í samtali við mbl.is. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert