Ef hlutirnir breytast ekki verð ég að fara

Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Ljósmynd/twitter

„Miðað við óbreytt ástand þá tel ég líkurnar meiri heldur en minni á að ég fari frá Aston Villa í janúar,“ sagði landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason í samtali við mbl.is í dag.

Birkir hefur fengið sárafá tækifæri með Aston Villa á leiktíðinni. Hann hefur aðeins komið við sögu í 9 af 26 leikjum liðsins í deildinni og í tveimur þeirra hefur hann verið í byrjunarliðinu. Birkir skoraði á nýársdag sitt fyrsta mark fyrir Villa þegar hann kom inn á í 5:0 sigri gegn Bristol City. Hann var svo í byrjunarliðinu á laugardaginn þegar Aston Villa tapaði fyrir C-deildar liði Peterbrough í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á heimavelli, 3:1. Birki var skipt af velli á 80. mínútu leiksins.

Umboðsmaður Birkis lét hafa eftir sér í ítölskum fjölmiðlum um nýliðna helgi að Birkir vildi gjarnan snúa aftur til Ítalíu og hefur hann meðal annars verið orðaður við lið SPAL sem er í 17. sæti af 20 liðum í ítölsku A-deildinni. Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að forráðamenn SPAL hafi rætt við Aston Villla um möguleg félagaskipti. Birkir hefur spilað með tveimur ítölskum liðum, Pescara og Sampdoria.

„Það er lítið að frétta í augnablikinu. Ég get ekki sagt til um það núna hvort ég fer í janúarglugganum. Ég er í erfiðri stöðu og ef hlutirnir breytast ekki þá verð ég að fara eitthvað annað. Ég vill vera í góðu formi í sumar þegar HM fer fram. Það eru möguleikar í stöðunni og ég veit til þess að lið hafa verið að spyrjast fyrir um mig. Vonandi skýrast hlutirnir sem fyrst,“ sagði Birkir Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert