Leikmenn Basaksehir og PSG gengu af velli í París

Neymar, Kylian Mbappé og Demba Ba á hliðarlínunni eftir uppákomuna …
Neymar, Kylian Mbappé og Demba Ba á hliðarlínunni eftir uppákomuna í kvöld. AFP

Leikmenn tyrkneska knattspyrnuliðsins Istanbul Basaksehir gengu af velli fyrir nokkrum mínútum þegar fyrri hálfleikur í leik þeirra gegn París SG í Meistaradeild Evrópu í Frakklandi var hálfnaður.

Pierre Webo aðstoðarþjálfari Basaksehir sagði að fjórði dómari leiksins, Sebastian Coltescu frá Rúmeníu, hefði sýnt sér kynþáttafordóma og í kjölfarið gengu leikmenn tyrkneska liðsins með Demba Ba í fararbroddi af velli.

Þeir héldu til búningsklefanna og leikmenn PSG fylgdu fordæmi þeirra og gengu líka af velli og í átt að klefunum.

Þetta gerðist á 23. mínútu leiksins í kjölfar þess að Webo fékk rauða spjaldið frá dómara leiksins, Ovidiu Hategan frá Rúmeníu fyrir að mótmæla dómi. Orðaskipti í kjölfarið hleyptu öllu í bál og brand á varamannabekkjum liðanna.

Samkvæmt fjölmiðlum sem hafa greint orðaskiptin sem áttu sér stað fóru lætin af stað þegar Coltescu svaraði dómaranum hver það væri sem ætti að fá rauða spjaldið. „Það var sá svarti,“ mun fjórði dómarinn hafa sagt.

Uppfært kl. 21.11:
Leikurinn er enn ekki hafinn á ný. Leikmenn PSG munu vera tilbúnir til að halda áfram og bíða í göngunum en ekkert bólar á leikmönnum  tyrkneska liðsins.

Haft er eftir UEFA að nýr fjórði dómari hafi verið fenginn til starfa og leikurinn muni halda áfram.

Uppfært kl. 22.17:
Enn hefur ekki verið haldið áfram í París þrátt fyrir tilkynningu UEFA þar að lútandi. Franskur íþróttafréttamaður segir á Twitter að Tyrkirnir neiti að halda áfram og hafni því að leikurinn verði spilaður síðar.

Málin rædd á hliðarlínunni í París í kvöld.
Málin rædd á hliðarlínunni í París í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert