Tíu stig dregin af Juventus sem steinlá

Tíu stig voru dregin af karlaliði Juventus í dag.
Tíu stig voru dregin af karlaliði Juventus í dag. AFP/Marco Bertorello

Dagurinn reyndist ekki mjög gæfusamur fyrir ítalska knattspyrnufélagið Juventus. Tíu stig voru dregin af karlaliðinu í A-deildinni skömmu fyrir leik þess gegn Empoli í deildinni í kvöld, þar sem liðið steinlá, 1:4.

Fyrr á tímabilinu voru 11 stig dregin af Juventus en þeirri ákvörðun var síðar snúið við.

Nú hefur ítalskur dómstóll úrskurðað að draga skuli stig af félaginu á ný vegna fjármálamisferlis í tengslum við félagaskipti undanfarin tímabil.

Að þessu sinni hafa tíu stig verið dregin af liðinu, sem þýðir að Juventus er skyndilega ekki í öðru sæti heldur því sjöunda með 59 stig, fimm stigum frá Meistaradeildarsæti þegar tvær umferðir eru óleiknar.

Í leik kvöldsins var Empoli komið í 3:0 snemma í síðari hálfleik.

Federico Chiesa lagaði stöðuna seint í leiknum áður en Empoli bætti  við fjórða markinu.

Empoli var fyrir nokkru síðan búið að tryggja sæti sitt í A-deildinni að ári og er sem stendur í 14. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert