Freyr getur enn bjargað Kortrijk

Freyr Alexandersson er þjálfari Kortrijk.
Freyr Alexandersson er þjálfari Kortrijk. Ljósmynd/Kortrijk

Freyr Alexandersson og hans menn í Kortrijk geta enn haldið sæti sínu í A-deild belgísku knattspyrnunnar eftir gríðarlega dýrmætan útisigur á Molenbeek í dag, 1:0.

Staðan fyrir leikinn var sú að Molenbeek hefði með sigri sent bæði Kortrijk og hitt Íslendingaliðið í fallslagnum, Eupen, niður í B-deildina.

Úrslitin þýða hins vegar að þegar tvær umferðir eru eftir er Molenbeek með 30 stig, Kortrijk 28 og Eupen 25 stig. Tvö neðstu liðin falla en þriðja neðsta liðið fer í umspil.

Nayel Mehssatou skoraði markið dýrmæta strax á 16. mínútu leiksins.

Kortrijk og Eupen mætast um næstu helgi og þar verður í húfi síðasta hálmstrá beggja liða um að geta forðast fall en með Eupen spila þeir Guðlaugur Victor Pálsson og Alfreð Finnbogason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert