650 manns hlaupa 55km á morgun

Andrea Kolbeinsdóttir að koma í mark á mettíma í fyrra.
Andrea Kolbeinsdóttir að koma í mark á mettíma í fyrra. Laugavegshlaup.is

Laugavegshlaupið fer fram í 26. sinn á morgun og eru alls eru 650 hlauparar sem mæta til leiks, 417 karlar og 233 konur. Hlaupið hefst í Landmannalaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk og er leiðin 55km.

Venjan er að ganga þessa 55 kílómetra á fjórum dögum en met hlaupatími leiðarinnar eru 3 klukkustundir og 59 mínútur í karlaflokki en það met á Þorbergur Ingi Jónsson. Í kvennaflokki er metið 4 klukkustundir og 55 mínútur sem Andrea Kolbeinsdóttir á.

 Andrew Douglas vann hlaupið í fyrra karlamegin og mun taka þátt að nýju á þessu ári. Arnar Pétursson, sjöfaldur Íslandsmeistari í maraþoni mun taka þátt í Laugavegshlaupinu í fyrsta sinn en hann hefur aldrei tekið þátt í utanvegahlaupi lengra en 26 km. Kris Brown frá Bandaríkjunum mætir einnig til leiks í sitt fyrsta Laugavegshlaupið en hann er reyndur Ultra hlaupari og gæti veitt Arnari og Andrew mikla keppni.

 Andrea Kolbeinsdóttir vann keppnina í fyrra í sínu fyrsta Laugavegshlaupi. Hún setti nýtt met í kvennaflokki og var sú fyrsta til að fara hlaupið á undir fimm klukkutímum. Candice Schneider frá Bandaríkjunum hefur náð góðum árangri í fjölda hlaupa og verður gaman að sjá hana í íslenskum aðstæðum. Engin kona hefur tekið jafn oft þátt og Elísabet Margeirsdóttir en hún er að taka þátt á sínu 13. móti.

Hlauparar koma alls staðar að úr heiminum en um 30% hlauparar eru erlendir. Þeir koma frá 32 mismunandi löndum en flestir eru frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert