Eitt yngsta íþróttafélag landsins, Karatefélag Garðabæjar, var sigursælt á Íslandsmeistaramóti barna í kata, sýningarhluta karateíþróttarinnar, sem haldið var í Smáranum í Kópavogi um fyrri helgi.
Félagið var stofnað í desember 2021 og hóf formlega starfsemi sína í febrúar 2022. Garðbæingar gerðu sér lítið fyrir og fengu flest stig allra þátttökuliða á mótinu og hrepptu því titilinn Íslandsmeistarar félagsliða árið 2024.
Með því fylgdi Karatefélag Garðabæjar eftir góðum árangri á mótinu á síðasta ári þegar það hafnaði í þriðja sæti. Tólf félög tóku þátt í Íslandsmótinu og skráðir keppendur voru 193 talsins.
„Félagið er lítið en í markvissri uppbyggingu og erum við ótrúlega stolt af frammistöðu okkar iðkenda á þessu móti. Fimm Íslandsmeistaratitlar, þrenn silfurverðlaun og níu bronsverðlaun er frábær árangur,“ sagði Ingibjörg Ósk Hákonardóttir, stjórnarmaður í Karatefélagi Garðabæjar, við mbl.is.
„Félagið er stofnað af aðalþjálfaranum okkar, Vicente Carrasco, sem hefur unnið markvisst að uppbyggingu íþróttarinnar í meira en þrjátíu ár og stofnað sex karatedeildir hér á landi á farsælum ferli sem þjálfari,“ sagði Ingibjörg.
Meistarar í kata barna urðu eftirtalin:
Kata 7 ára og yngri pilta: Birkir Hrafn Jónsson, Karatefélag Garðabæjar
Kata 7 ára og yngri stúlkna: Iðunn Ylja Freysdóttir, Karatefélag Garðabæjar
Kata 8 ára pilta: Þórólfur Magni Halldórsson, Karatefélag Reykjavíkur
Kata 8 ára stúlkna: Maren Pálsdóttir Miura, Karatefélag Garðabæjar
Kata 9 ára pilta: William Minh Tue Pham, ÍR
Kata 9 ára stúlkna: Þórdís Jóna Bogadóttir, Breiðablik
Kata 10 ára pilta: William Hoang Thien Nguyen, Karatefélag Reykjavíkur
Kata 10 ára stúlkna: Brynja Von Finnsdóttir, Karatefélag Reykjavíkur
Kata 11 ára pilta: Dariel Anton Davíðsson Orellana, Karatefélag Akraness
Kata 11 ára stúlkna: Karen Pálsdóttir Miura, Karatefélag Garðabæjar
Hópkata 9 ára og yngri: Karatefélag Garðabæjar
Hópkata 10 og 11 ára: Karatefélag Reykjavíkur