Zoran: Brotnuðum við annað mark Vals

Zoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur.
Zoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Kristinn

„Við reyndum að koma liðinu í gang í seinni hálfleik og í stöðunni 0:1 finnst mér að við hefðum átt að fá víti en fengum ekki og eftir annað mark Vals brotnuðum við niður og gáfumst upp því við áttum ekkert svar,“ sagði Zoran Ljubicic, þjálfari Keflavíkur, eftir 4:0 tap fyrir Val í Keflavík í kvöld þegar leikið var í Pepsi-deild karla.  

„Ég verð hinsvegar að hrósa mínum mönnum fyrir fyrstu 85 mínúturnar þegar þeir reyndu allt sem þeir gátu.  Okkur vantaði nokkra fastamenn og leikmannahópurinn er ekki stór, á varamannabekknum voru strákar fæddir frá 1994 til 1996 en það er engin afsökun því þeir sem fá tækifæri verða að nota þau. Það komu nokkur atvik þegar mér fannst Valsmenn spila fast og dómari ekki dæma neitt, sérstaklega framherji þeirra sem fór ekki vel í mína menn en við verðum að vera tilbúnir í leikinn, sem við vorum ekki í dag.“ 

Sjálfur var Zoran rekinn af bekknum þegar hann var ekki sáttur við dóm.  „Ég talaði aldrei við aðstoðardómarann en hann kallaði á dómarann, sem gaf mér rautt spjald og eftir leikinn spurði ég af hverju, þá sagði hann það vera fyrir gróf mótmæli. Aðstoðarþjálfari Vals var á bakinu á aðstoðardómaranum fyrir og leikmaður Vals sló okkar mann en ekkert var dæmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert