Mikið áfall fyrir Íslandsmeistarana

Sverrir Pálsson í fjósinu í Stóru Sandvík.
Sverrir Pálsson í fjósinu í Stóru Sandvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sverrir Pálsson, varnarmaðurinn öflugi í liði Íslandsmeistara Selfoss í handknattleik, varð fyrir alvarlegum hnémeiðslum á dögunum og kemur væntanlega ekki til með spila með Selfyssingum á komandi leiktíð. Vefurinn sunnlenska.is greinir frá þessu.

„Fremra krossbandið er slitið og ég fer í aðgerð í lok september. Það er því miður ólíklegt að ég nái eitthvað að vera með í vetur og þetta er mjög svekkjandi. Ég stefni bara á að koma sterkari til baka,“ sagði Sverrir í samtali við sunnlenska.is.

Sverrir lék stórt hlutverk í varnarleik Selfossliðsins á síðustu leiktíð en liðið hampaði Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir að hafa haft betur gegn Haukum í úrslitaeinvíginu.

Stórskyttan Einar Sverrisson er einnig frá vegna meiðsla en hann reif krossband í mars og fór í aðgerð í kjölfarið. Einar stefnir á að vera byrjaður að æfa af krafti í febrúar.

Keppnistímabilið í handboltanum hefst formlega á miðvikudagskvöldið en þá mætast Íslandsmeistarar Selfoss og bikarmeistarar FH í árlegum leik í Meistarakeppni HSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert