Engir Íslands- eða deildarmeistarar krýndir

Framhaldið í Dominos-deildunum er enn óljóst.
Framhaldið í Dominos-deildunum er enn óljóst. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn og starfsmenn KKÍ funduðu í morgun til að fara yfir þá stöðu sem upp er komin í samfélaginu vegna kórónuveirunnar. Var farið yfir mótahaldið og komist að þeirri niðurstöðu að enginn deildar- eða Íslandsmeistari yrði kjörinn í þremur deildum í meistaraflokki og öllum yngri flokkum. 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um efstu tvær deildir í karla- og kvennaflokki, en niðurstaða liggur fyrir í síðasta lagi á miðvikudag í næstu viku. Þá hefur íþróttahreyfingin fengið rými til að ræða frekar við sóttvarnalækni og almannavarnir um þá stöðu sem er uppi og með hvaða hætti samkomu- og nálægðarbann hefur áhrif á íþróttahreyfinguna.

„Ef stjórn KKÍ ákveður að ljúka keppnistímabilinu 2019-2020 í tveimur efstu deildum karla og kvenna mun stjórnin funda áfram og ræða hvort og þá hvernig lið verði flutt milli deilda. Ótímabært er að fara nánar út í það á þessari stundu,“ segir m.a í yfirlýsingu frá KKÍ í dag. 

Í eftirfarandi flokkum og deildum verða ekki krýndir deildar og/eða Íslandsmeistarar: 

2. deild karla
2. deild kvenna
3. deild karla
Unglingaflokkur karla
Stúlknaflokkur
Drengjaflokkur
10., 9., 8., og 7. flokkur drengja og stúlkna
Minnibolti 11, 19 og 9 ára drengja og stúlkna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert