Ég er ekki vondi karlinn

Adomas Drungilas var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir skrautlegt tímabil.
Adomas Drungilas var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir skrautlegt tímabil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Adomas Drungilas, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn, var skiljanlega í góðu skapi er hann ræddi við mbl.is eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í fyrsta skipti á föstudaginn var með sigri á Keflavík í úrslitaeinvígi, 3:1.

„Tilfinningin er virkilega góð. Við eigum þetta skilið eftir að hafa barist fyrir þessu. Okkur var spáð tíunda sæti og það voru ekki margir að búast við þessu. Við vildum hins vegar sýna öllum að við vildum meira en tíunda sæti og að minnsta kosti fara í úrslitakeppnina,“ sagði Drungilas við mbl.is. Hann viðurkennir að markmið Þórsara voru ekki endilega að verða meistarar.

„Við vorum ekki að búast við því frá byrjun að verða meistarar en hægt og rólega urðum við betri og betri og trúin varð meiri. Það var frábært að sýna öllum sem höfðu ekki trú á okkur að við getum þetta. Við lögðum mikið á okkur og spiluðum sem lið. Liðsandinn hjá okkur var góður og við lærðum á hver annan og við gerðum fallega hluti saman. Við toppuðum svo á hárréttum tíma,“ sagði Litháinn.

Þórsarar fagna fyrsta Íslandsmeistaratitlinum.
Þórsarar fagna fyrsta Íslandsmeistaratitlinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tímabilið hjá Drungilas var sveiflukennt. Hann var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir magnaða frammistöðu gegn Stjörnunni og Keflavík, en hann var í þrígang úrskurðaður í bann fyrir að gefa andstæðingum olnbogaskot.

„Ég tala aldrei um mína eigin frammistöðu, stigaskorið mitt eða hvað ég geri sjálfur inni á vellinum. Ég var samt vondi karlinn framan af tímabili og fólk var sammála um að Drungilas væri vondi karlinn í deildinni. Ég er hins vegar ekki vondi karlinn, það er ekki eins og ég hafi verið að reyna að drepa einhvern á vellinum. Ég berst fyrir hverju frákasti og ég gerði ekki verri hluti en aðrir á tímabilinu. Suma daga var í lagi að berjast eins og ég gerði svo allt í einu var það ekki í lagi,“ sagði hann.

Drungilas og landi hans Domynikas Milka börðust eins og hundur og köttur undir körfunni í einvíginu gegn Keflavík. Þeir virtust ekki góðir vinir meðan á leikjunum stóð. „Það er talað mikið um þetta hér á Íslandi, ég þekki hann og hann þekkir mig, en það var ekkert óvenjulegt við okkar baráttu,“ sagði Drungilas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert