Valur Íslandsmeistari í fyrsta skipti í 39 ár

Valur er Íslandsmeistari karla í körfubolta í þriðja sinn og í fyrsta skipti frá árinu 1983 eftir 73:60-heimasigur á Tindastóli í oddaleik á Hlíðarenda í kvöld. Valur vann einvígið 3:2.

Gestirnir byrjuðu betur og komust í 8:2 eftir fjórar mínútur og þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var staðan orðin 13:3 eftir þriggja stiga körfu hjá Javon Bess og Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals tók leikhlé.

Leikhléið skilaði því skömmu síðar var staðan orðin 13:10. Þá tók Tindastóll hinsvegar aftur við sér og með góðum endaspretti í fyrsta leikhluta var munurinn átta stig, 22:14, Tindastóli í vil.

Tindastóll byrjaði annan leikhlutann á að komast tíu stigum yfir, 24:14. Valsmenn svöruðu hinsvegar með góðu áhlaupi og þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður var munurinn fimm stig, 26:21.

Þegar tvær mínútur voru eftir voru Valsmenn búnir að jafna í 30:30 og skömmu síðar kom Jacob Calloway Val yfir í fyrsta skipti, 32:30.  Að lokum var allt hnífjafnt í hálfleik, 36:36. Hjálmar Stefánsson skoraði 14 stig fyrir Val í leikhlutanum og Taiwo Badmus gerði slíkt hið sama fyrir Tindastól.

Pavel Ermolinski skoraði fimm fyrstu stig seinni hálfleiks og kom Val fimm stigum yfir í fyrsta skipti, 41:36. Eftir það gekk báðum liðum illa að skora það sem eftir lifði leikhlutans. Fóru liðin í mjög erfiðar aðgerðir í sókninni og virtist mikil taugaspenna hjá leikmönnum. Að lokum var Valur einu stigi yfir fyrir fjórða leikhlutann, 50:49.

Valsmenn byrjuðu fjórða leikhlutann ögn betur og var munurinn fjögur stig þegar hann var tæplega hálfnaður, 56:52. Hjálmar Stefánsson skoraði fjögur af næstu fimm stigum fyrir Val og kom heimamönnum sjö stigum yfir í fyrsta skipti í leiknum 60:53, þegar fimm mínútur voru eftir.

Pavel Ermolinski kom Val níu stigum yfir skömmu síðar en Javon Bess svaraði með þriggja stiga körfu og var munurinn því sex stig þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, 64:58. Þá átti Valur aftur góðan kafla og komst tíu stigum yfir þegar ein og hálf mínúta var eftir, 68:58. 

Tindastóll komst ekki nálægt því að jafna eftir það og Valur fagnaði fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í 39 ár. 

Gangur leiksins:: 2:6, 5:13, 10:13, 14:22, 17:26, 21:28, 28:30, 36:36, 44:39, 46:42, 48:46, 50:49, 53:52, 60:53, 66:58, 73:60.

Valur: Hjálmar Stefánsson 24/5 fráköst, Kristófer Acox 13/19 fráköst, Callum Reese Lawson 10/4 fráköst, Jacob Dalton Calloway 7/8 fráköst, Pablo Cesar Bertone 7/7 fráköst, Pavel Ermolinskij 7/4 fráköst, Kári Jónsson 5/5 fráköst/7 stoðsendingar.

Fráköst: 36 í vörn, 16 í sókn.

Tindastóll: Taiwo Hassan Badmus 17/7 fráköst, Javon Anthony Bess 13/10 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 12/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/7 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 6/5 fráköst/6 stoðsendingar, Axel Kárason 4.

Fráköst: 26 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Ísak Ernir Kristinsson.

Áhorfendur: 2200

Valur 73:60 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is