Valur er Íslandsmeistari kvenna í körfubolta árið 2023 eftir 72:68-heimasigur á Keflavík í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu í kvöld. Valur vann einvígið 3:1 og er Íslandsmeistari í þriðja sinn alls og í þriðja sinn á síðustu fimm árum.
Enginn meistari var krýndur árið 2020 vegna kórónuveirunnar og hefur Valur því unnið þrjá af síðustu fjórum Íslandsmeistaratitlum sem í boði voru.
Keflavík byrjaði betur og í kvöld og var yfir svo gott sem allan fyrri hálfleikinn. Keflavík náði mest níu stiga forskoti í stöðunni 29:20. Valskonur voru hins vegar sterkari síðustu mínútur annars leikhluta og var staðan í hálfleik 34:31.
Daniela Wallen skoraði tólf stig fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og var stigahæst allra. Enginn skoraði meira en sex stig í jöfnu liði Vals. Kiana Johnson gerði t.a.m. aðeins tvö stig í öllum fyrri hálfleik.
Hún spilaði töluvert betur í þriðja leikhluta, skoraði sjö stig og átti stóran þátt í að Valur vann upp þriggja stiga forskotið. Simone Costa skoraði úr tveimur vítum í blálok þriðja leikhluta og jafnaði í 54:54, sem var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Valur komst yfir í fyrsta skipti þegar þrjár og hálf mínúta var eftir, 63:61. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur og voru lokamínúturnar æsispennandi. Valur var með 67:65-forskot, þegar 45 sekúndur voru eftir.
Þá skoraði Karina Konstantinova þriggja stiga körfu og kom Keflavík aftur yfir, 68:67. Embla Kristínardóttir svaraði með þriggja stiga körfu og kom Val yfir á ný, 70:68, þegar 26 sekúndur voru eftir. Embla skoraði síðan tvö síðustu stigin á vítalínunni og tryggði Val Íslandsmeistaratitilinn.
Gangur leiksins:: 0:4, 4:7, 10:14, 13:17, 16:21, 20:26, 27:29, 31:34, 37:41, 43:50, 48:50, 54:54, 55:57, 59:61, 63:63, 72:68.
Valur: Ásta Júlía Grímsdóttir 14/11 fráköst, Kiana Johnson 13/8 fráköst/5 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 12/12 fráköst/3 varin skot, Embla Kristínardóttir 10/7 fráköst, Simone Gabriel Costa 10, Hallveig Jónsdóttir 5/5 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 5/4 fráköst, Eydís Eva Þórisdóttir 3.
Fráköst: 32 í vörn, 18 í sókn.
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 21/14 fráköst/3 varin skot, Birna Valgerður Benónýsdóttir 12, Karina Denislavova Konstantinova 11/8 fráköst/5 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 8, Anna Ingunn Svansdóttir 6, Anna Lára Vignisdóttir 5, Agnes María Svansdóttir 3, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2.
Fráköst: 22 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem, Jakob Árni Ísleifsson.
Áhorfendur: 923