Vorum með níu putta á titlinum en hentum þessu frá okkur

Kristófer Acox.
Kristófer Acox. mbl.is/Óttar Geirsson

Kristófer Acox, leikmaður Vals, var að vonum svekktur eftir tap gegn Tindastóli í oddaleik úrslitaeinvígisins um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í Origo-höllinni á Hlíðarenda í gærkvöldi. Tindastóll vann leikinn með einu stigi, 82:81, þar sem dramatíkin var allsráðandi á lokaandartökum leiksins.

„Það er eiginlega bara ekki hægt að segja neitt. Þetta eru bara vonbrigði, við erum með unninn leik. Við vorum með níu putta á titlinum en hentum þessu frá okkur.“

Valur var fimm stigum yfir þegar skammt var eftir af leiknum og virtist allt stefna í að liðið myndi vinna sinn annan Íslandsmeistaratitil í röð. Gestirnir úr Skagafirði hins vegar gáfust ekki upp og þegar fjórar sekúndur voru eftir kom Antonio Keyshawn Woods þeim yfir með því að setja niður þrjú vítaskot.

„Við erum að stjórna þessu. Það þurfti allt að fara úrskeiðis til að við myndum tapa þessu í restina, og það fór allt úrskeiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert