Áfall fyrir Bandaríkin – Biles ekki með

Simone Biles í keppni í stökki í dag.
Simone Biles í keppni í stökki í dag. AFP

Simone Biles, einn fremsti íþróttamaður heims, verður ekki meira með í liðakeppni fimleikakeppninnar í Tókýó sem nú stendur yfir eins og til stóð. 

Biles var að draga sig úr keppni og virðist glíma við meiðsli. Hún var tæp vegna ökklameiðsla í aðdraganda Ólympíuleikanna og var ekki upp á sitt allra besta í undankeppninni á leikunum á dögunum. 

Biles keppti í stökki í morgun í liðakeppninni en fór í framhaldinu til búningsherbergja ásamt læknateymi bandaríska liðsins. Í framhaldinu var ákveðið að hún myndi ekki keppa á tvíslá en síðar var tilkynnt að hún yrði ekki meira með í liðakeppninni. 

Úrslit í einstaklingskeppni í fjölþraut og á einstökum áhöldum fimleikakeppninnar á Ólympíuleikunum eru eftir síðar í vikunni og á þessum tímapunkti er algerlega óljóst hvort Biles hefur heilsu til að vera með en því var spáð að hún færi heim með mörg gullverðlaun af leikunum rétt eins og í Ríó fyrir fimm árum. 

mbl.is