Biles getur orðið sú fyrsta í sögunni

Simone Biles getur enn unnið fimm gullverðlaun á Ólympíuleikunum.
Simone Biles getur enn unnið fimm gullverðlaun á Ólympíuleikunum. AFP

Simone Biles, besta fimleikakona allra tíma, komst í dag í úrslit á gólfi, jafnvægisslá, stökki og tvíslá á Ólympíuleikunum í tókýó. Þá er hún í efsta sæti í fjölþraut og í öðru sæti með bandaríska liðinu í liðakeppninni á eftir Rússlandi.

Biles vann fjögur gull á Ólympíuleikunum á Ríó 2016, en hún getur enn unnið sex gull á leikunum í ár og orðið fyrsta fimleikakonan í sögunni til að afreka það á einum leikum. 

Sú bandaríska var hins vegar ólík sjálfri sér í dag. Hún átti þátt í að einkunn bandaríska liðsins í gólfi var lækkuð, þar sem hún lenti í tvígang illa.

Þá hafnaði hún í tíunda sæti á tvíslá, en fór áfram þar sem aðeins tveir frá hverju landi fara áfram í úrslit á hverju áhaldi fyrir sig. Fjórar rússneskar fimleikakonur voru á undan henni, en aðeins tvær þeirra fóru áfram og Biles slapp með skrekkinn. Hún varð sjöunda á jafnvægisslánni, önnur í gólfæfingum og vann stökkið.  

Þrátt fyrir það á hún enn fína möguleika á að vinna sex gull á leikunum, ef hún vinnur á jafnvægisslá, gólfæfingum, stökki, fjölþraut og liðakeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert