Klopp baðst afsökunar og van Dijk skaut á liðsfélaga

Virgil van Dijk var svekktur í leikslok.
Virgil van Dijk var svekktur í leikslok. AFP/Isabella Bonotto

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool bað stuðningsmenn félagsins afsökunar þegar hann ræddi við Sky Sports eftir 2:0-tap liðsins gegn Everton á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi.

Liverpool lék ekki vel í leiknum og eru titilvonir liðsins litlar eftir úrslitin. „Ég fann til með stuðningsmönnunum. Við höfum ekki tapað á þessum velli og ég biðst afsökunar.

Það var ekkert jákvætt í þessu. Þetta eru mikil vonbrigði og við erum pirraðir. Þetta var ekki nógu gott og við leyfðum Everton að spila sinn leik,“ sagði Klopp.

Fyrirliðinn Virgil van Dijk var allt annað en sáttur þegar hann ræddi við sama miðil og skaut á liðsfélaga sína.

„Ég er mjög vonsvikinn á marga vegu. Það þurfa allir að horfa í spegilinn og horfa á eigin frammistöðu og spyrja sig hvort þeir hafi í alvöru gefið allt og hvort þeir vilja í alvöru vinna deildina.

Ef við vinnum ekki þessi einvígi og leggjum hart að okkur eigum við enga möguleika á að verða meistarar,“ sagði Hollendingurinn svekktur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert