„Verðið þarf að lækka“

Breska veiðikonan Lilla Rowcliffe fagnar með Árna Pétri Hilmarssyni eftir ...
Breska veiðikonan Lilla Rowcliffe fagnar með Árna Pétri Hilmarssyni eftir að hafa veitt fallega hrygnu í Laxá í Aðaldal. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Ný greinargerð um ástandið á stangveiðimarkaðinum, sem unnin var fyrir Landssamband stangaveiðifélaga, hefur vakið mikla athygli. Enda er þar dregin upp svört mynd og hrun sagt blasa við í sölu veiðileyfa í lax- og silungsveiði.

Fullyrt er að um 30% samdráttur sé í sölu veiðileyfa og að áhugi erlendra veiðimanna á Íslandi sem laxveiðiparadís hafi minnkað. Sagt er að verð veiðileyfa þurfi að lækka, um allt að 20% á besta tíma og 50% á jaðartímum, vor og haust.

„Við heyrðum frá okkar aðildarfélögum, eins og Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, Ármönnum og fleirum að salan væri dræm. Því ákvað stjórnin að láta taka saman þessa skýrslu til að sjá hvernig ástandið er. Í ljós kom að ástandið á markaðinum er alvarlegt,“ segir Viktor Guðmundsson, formaður Landssambands stangaveiðifélaga.

Hann segir að þeir séu ekki að biðja um neitt samráð um lækkun veiðileyfa heldur að viðsemjendur ræði saman. „Menn þurfa einfaldlega að vakna og gera eitthvað í þessu, því málið er alvarlegt. Við höfum ekki lent í því fyrr að vera með jafn mikið af óseldum leyfum í byrjun sumars,“ segir hann.

Þurfa að tala saman

Viktor segir augljóst að veiðileyfamarkaðurinn sé í kreppu og að millistéttin, sem keypti leyfi á ákveðnu verðbili, hafi ekki lengur efni á því. Við því þurfi að bregðast. „Ég held það sé betra að veiðiréttareigendur og veiðileyfasalar tali saman og geri þetta á skynsamlegum nótum. Ég sé ekki annað en að verðlækkun sé það eina sem dugir. Í framhaldi þurfa menn að fara í viðræður um breytingar á fyrirkomulagi leigu á veiðisvæðum, hvort það ætti til dæmis að fara út í að skipta áhættunni eins og stjórnarmenn SVFR hafa lagt til. Landslagið er ekki eins og það var.“

Viktor segir samdrátt líka meðal erlendra veiðimanna, þótt hann virðist ekki bíta á ákveðinn hóp. „En ég held það sé ljóst að við erum ekki samkeppnishæfir miðað við erlendan markað, verðið er orðið allt of hátt,“ segir hann.

Hlaut að koma að þessu

„Við fórum upp úr þakinu og verðum nú að stilla okkur af,“ segir Árni Baldursson, framkvæmdastjóri Lax-á. Fyrirtæki hans hefur um árabil verið einn umsvifamesti aðilinn á veiðileyfamarkaðinum. Hann segir niðurstöður skýrslunnar vera réttar.

„Í sjálfu sér hlaut að koma að þessu. Ég held að allir hafi vitað það, landeigendur, leigutakar sem veiðimenn. Það hefur gengið mjög vel á Íslandi, veiðin verið góð og mikill uppgangur fram að hruni. Hrunið fór ekki að koma í ljós á veiðileyfamarkaði fyrr en aðeins í fyrra en nú er komið að því. Í fyrra var algjört veiðihrun og í kjölfarið bitnar kreppan á almennum veiðimönnum hér,“ segir Árni og bætir við að á sama tíma sé mikill samdráttur í sölu veiðileyfa erlendis. „Flestir erlendu veiðimannanna okkar komu frá Spáni en þeim hefur nú fækkað um níutíu prósent.

Það var bölvað óstuð að fá veiðihrunið í fyrra ofan í allt annað. Nú vantar spenninginn í menn, þeir eru daufir. En svona er ástandið og ég tel að við verðum að vinna okkur saman út úr því. Ég held að það verði ekki gert nema með verðlækkun.“

Erfitt fyrir alla

Árni segir það ástand sem upp er komið vera erfitt fyrir alla. „Það er erfitt fyrir landeigendur að sætta sig við lækkun, enda treysta þeir á greiðslur af veiðisvæðunum. Á sama tíma eru leigutakar í miklum vandræðum við að ná endum saman til að geta greitt leiguna. En markaðurinn ræður ferðinni og nú segir markaðurinn að komið sé nóg. Það sjá allir að verðið þarf að lækka.“

Hann telur ekki ráðlegt að taka ákvarðanir um einhverja samræmda lækkun en hvetur menn til að ræða saman. „Sumar ár gáfu ágæta veiði í fyrra og eru kannski ágætlega seldar, þá þarf ekki endilega að lækka verðið þar, á meðan algjört hrun varð í öðrum og þær eru mikið til óseldar. En heildarmyndina verður að skoða, ég hef ekki séð ástandið þetta slæmt á þeim 26 árum sem ég hef verið með Lax-á,“ segir Árni.

Hann ítrekar að mikilvægasta verkefni leigusala og leigutaka sé að hlúa að viðskiptavinunum til að vernda þá mikilvægu auðlind sem stangveiðin er. „Við verðum að hafa þá á okkar bandi og fá þá til að koma að veiða, Íslendinga sem útlendinga. Ef kúnninn fer þá er margföld vinna að fá hann til baka.

Á undanförnum árum höfum við talað auðlindina upp og verðið hefur hækkað; erlendir veiðimenn skilja ekki verðhækkun þegar veiðin breytist ekki. Svo bætist við verðtrygging á samningum og verðbólga, þeir eru ekki vanir slíku. Það var samt í lagi þegar allir veiddu og var gaman en í fyrra veiddist lítið og þá fannst mörgum þeirra ekkert gaman lengur. En það er ekki komið sumar enn og ýmislegt er hægt að gera.“

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is

Bloggað um fréttina