460 Hljóðfærahúsið ehf.

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 201
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Starfsemi Smásala á hljóðfærum í sérverslunum
Framkvæmdastjóri Arnar Þór Gíslason
Fyrri ár á listanum 2017, 2019, 2020, 2021
Framúrskarandi 2022

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 278.147
Skuldir 206.851
Eigið fé 71.296
Eiginfjárhlutfall 25,6%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 3
Endanlegir eigendur 3
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Smásala á húsgögnum, ljósabúnaði og öðrum ótöldum heimilisbúnaði í sérverslunum

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

„Mitt eldsneyti er að afgreiða kúnnann“

Arnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Hljóðfærahússins, hefur rekið verslanirnar frá því …
Arnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Hljóðfærahússins, hefur rekið verslanirnar frá því í september 2017. Hann hóf áður störf í trommudeildinni árið 2005, en hann er sjálfur trommari. Morgunblaðið/Ari Páll

Hljóðfærahúsið er elsta hljóðfæraverslun landsins með ríkulega sögu. Sú saga nær aftur til ársins 1916, þegar hin danska Anna Ellen Christensen-Hejnæs og maður hennar Ólafur Müller Friðriksson hófu smásölu á píanóum, harmónikkum og gítörum á horni Templarasunds og Pósthússtrætis, sem þau fluttu inn frá Danmörku. Það mætti í raun segja að verslunin hafi fylgt íslenskri tónlistarsögu frá upphafi.

Hljóðfærahúsið rekur nú verslun í Síðumúla, Tónabúðina á Akureyri og vefverslun sem sífellt nýtur meiri vinsælda, þar sem finna má nær allt það sem finna má í búðunum tveimur; feiknamikið úrval hljóðfæra, hljóðkerfa og annarskonar tónlistarbúnaðar.

Arnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Hljóðfærahússins, hefur rekið verslanirnar frá því í september 2017 en mörg vötn hafa runnið til sjávar frá því hann hóf störf í trommudeildinni árið 2005. Hann segir hátt þjónustustig, gott úrval, starfsánægju og hlýtt viðmót lykilinn að velgengni verslunarinnar.

Sókn í stórum lager

Lífið er þó ekki bara falleg tónlist, því líkt og mörg önnur fyrirtæki mætir Hljóðfærahúsið fjölbreyttum áskorunum. Harðnandi erlend samkeppni, aukin sókn í vefverslun og auknar kröfur neytenda um úrval er dæmi um þróun í rekstri og þjónustu hljóðfæraverslana. Arnar segir þeim mikilvægt að hafa alltaf úrvalið í lagi af þeim vörum sem viðskiptavinurinn vill sjá og handleika.

„Heimurinn er orðinn svo lítill í þessum bransa að þú getur keypt hvað sem er í erlendum vefverslunum. Okkar sókn í því er að eiga eins mikinn lager og mögulegt er, þó að það sé erfitt að eiga allt sem er til í heiminum. Við erum þó með frábæra birgja, sem skiptir höfuðmáli,“ segir Arnar og bætir við að fyrirtækið búi að góðum samskiptum við stór nöfn í hljóðfæraheiminum á borð við Yamaha, Fender, Shure, Taylor, Akai auk margra annarra.

„Þetta eru stærstu merkin í þessum bransa. Frá því að ég tók við þá höfum við bætt við nokkrum minni sem þó eru að stækka.“

Fyrirtækið hefur einnig í seinni tíð lagt áherslu á svokallaða „hifi-deild“ með vörum frá til dæmis Naim audio og focal.

Morgunblaðið/Ari Páll

„Það er alltaf einhver þróun í gangi, við keyrðum okkur í gegnum heimsfaraldur, sem var magnaður tími og athyglisvert hvernig spilaðist úr því,“ segir Arnar. Hann bætir við að faraldurinn hafi á endanum verið góður fyrir þeirra viðskipti, enda fólk eflaust með meiri tíma fyrir hljóðfærið sitt.

Spurður hvort helsta samkeppnin komi að utan, jánkar Arnar því.

„Já, ég myndi nú telja það að okkar helsta samkeppni séu erlendar vefverslanir. Algjörlega, þú getur pantað þér svo til hvað sem er á netinu, sem er bara hið besta mál, samkeppni er af hinu góða. Það sem við þurfum að gera er náttúrulega að passa upp á verðið og að það sé í lagi,“ segir Arnar.

Þá bætir hann við að þjónustan og samtalið sem verslunin veitir fáist ekki í gegnum tölvuna.

Keyrir vörur heim eftir lokun

Hljóðfærahúsið rekur, sem fyrr segir, samnefnda verslun í Síðumúla en einnig Tónabúðina á Akureyri. Hin fyrrnefnda festi kaup á þeirri síðarnefndu árið 2004 og rann því Tónabúðin í Reykjavík undir merki Hljóðfærahússins. Ekki var alveg hið sama uppi á teningnum fyrir norðan.

„Það er sami lager og allt en við breytum ekki um nafn á rótgrónu vörumerki á Akureyri, Akureyringar vilja komast í sína Tónabúð,“ segir Arnar.

„En við erum auðvitað í daglegum samskiptum og vörur ganga þarna á milli einu sinni í viku.“

Auk verslananna tveggja rekur Hljóðfærahúsið jafnframt vefverslun, sem Arnar segist líta á sem þriðju verslunina.

„Við höfum lagt mikla áherslu á hana og enn meiri þegar faraldurinn skall á,“ segir hann en þau voru þegar farin að efla vefverslun mikið áður en faraldurinn skall á.

„Þetta er bara verslun þrjú, við erum með verslun hér og fyrir norðan og síðan vefverslun. Hún hefur aukist alveg svakalega.“

Hljóðfærahúsið greiðir sendingarkostnaðinn ef keypt er fyrir ákveðið háa upphæð og hefur Arnar sjálfur stundað það að keyra út vörur á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég fer nú yfirleitt bara þegar búðinni hefur verið lokað, á leiðinni heim. Og vonandi er það þá „á leiðinni heim“ en ekki einhvers staðar lengst,“ segir hann glettinn.

„Meðan ég höndla það, þá finnst það bara gaman.“ Brosin á andlitum fólks þegar það fær nýju hljóðfærin sín er aðalatriðið fyrir Arnar.

„Ég náttúrulega persónulega þrífst á því að afgreiða fólk með hljóðfæri hér í búðinni eða afhenda það heim til þess, það sem það er að kaupa. Það að eignast hljóðfæri er svakalega gefandi og gaman að taka þátt í því.“

Morgunblaðið/Ari Páll

Ánægja starfsmanna skiptir máli

Sjálfur afgreiðir hann því fólk, þrátt fyrir að vera yfirmaður líka.

„Það skiptir öllu máli. Mitt eldsneyti er að afgreiða kúnnann, finna ánægjuna af því að einhver sé að eignast hljóðfæri. Ég er ekki menntaður í viðskiptafræði eða stjórnun, ég er bara maður sem hendir sér út í djúpa laug og það hefur gengið ágætlega hingað til að drukkna ekki.“

Um það bil átta til níu stöðugildi eru hjá Hljóðfærahúsinu og segist Arnar þeirrar skoðunar að starfsánægja skipti höfuðmáli. Fólk þurfi að finna það þegar það komi inn í verslunina að um sé að ræða gott umhverfi.

„Ég held að það hafi tekist ágætlega, að það sé góður fílingur að koma inn í Hljóðfærahúsið. Enginn tekur sig of alvarlega, enginn hér veit allt, en við getum þjónustað alla sem koma hér inn.“

Allir séu þeir góðir vinir og mikið í músík, sjálfur er Arnar trommari.

„Ánægja starfsmanna skiptir öllu máli upp á fílinginn fyrir kúnnann til að koma inn í búðina. Til að viðhalda starfsánægju þarf fyrst og fremst samtal milli starfsmanna til að halda góðum fílng milli fólks.“

Árið 2021 var algjört metár

Hljóðfærahúsið hagnaðist í fyrra um tæpar 59 milljónir króna, en tekjur félagsins námu rúmum 570 milljónum króna og jukust lítillega á milli ára. Tekjurnar hafa þó aukist ár frá ári síðastliðin fimm ár.

Varðandi fjárhagsstöðu fyrirtækisins segir Arnar hana betri en hún hefur verið lengi, enda séu þau nýkomin úr metári í sölu.

„Fjárhagsstaða fyrirtækisins er bara nokkuð góð núna, hefur farið smá upp á við frá því ég tók við, hvað svo sem veldur því,“ segir hann og nefnir að salan hafi aukist mikið í faraldrinum en sé að jafnast út núna.

„Þannig að við erum með nokkuð trygga fjárhagsstöðu þessa dagana. Árið 2021 var algjört metár, það er ágætis gangur í þessu en það hefur aðeins dregið úr, sem er eðlilegt. Það eru margir þættir sem hafa áhrif.“

Segir Arnar það mikinn línudans að eiga fyrir hlutunum, eiga nóg af vörum en einnig réttu vörurnar. Svo heppilega vilji til að fyrirtækið búi við mikinn og góðan lager þessa stundina af vörum sem munu líklegast koma til með að seljast vel fyrir jólavertíðina.

„Þannig að fjárhagsstaðan er ekki að valda mér andvökunóttum núna.“

Morgunblaðið/Ari Páll
mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar