888 Trésmiðja Þráins E. Gíslasonar ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 212
Landshluti Vesturland
Atvinnugrein Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Starfsemi Heildverslun með timbur, byggingarefni og hreinlætistæki
Framkvæmdastjóri María S Sigurðardóttir
Fyrri ár á listanum 2019–2021
Framúrskarandi 2022

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 122.315
Skuldir 59.772
Eigið fé 62.543
Eiginfjárhlutfall 51,1%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Heildverslun með timbur, byggingarefni og hreinlætistæki

pila

Miðlungi áhættumikil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Reis upp eins og fuglinn Fönix

Þráinn E. Gíslason, stofnandi Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar, hefur starfað …
Þráinn E. Gíslason, stofnandi Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar, hefur starfað í byggingariðnaði í rúma hálfa öld. Ljósmynd/SkessuhornMM

„Ég er búinn að vera í þessum iðnaði í fimmtíu ár, er fæddur og uppalinn í þessu og búinn að starfa í þessum bransa frá fermingu. Ég stofnaði fyrirtæki 1996 en ég ólst upp í Trésmiðjunni Akri þar sem pabbi var einn af stofnendum. Svo það lá í rauninni fyrir löngu áður en ég byrjaði í þessu að ég myndi enda þarna af því að þetta var mitt áhugasvið,“ segir Þráinn E. Gíslason, stofnandi og eigandi Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar.

„Pabbi vakti mig einn daginn og ég fór í vinnuna, svoleiðis var þetta. Síðan vakti ég börnin mín og fór með þau í vinnuna.“

Þráinn stofnaði Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar árið 1996 en fyrirtækið varð gjaldþrota í fjármálahruninu 2008. Hann lét það ekki stoppa sig, reis upp eins og fuglinn Fönix og stofnaði fyrirtækið GS Import árið 2011, en í dag hefur fyrirtækið tekið upp gamla nafnið og er í hópi framúrskarandi fyrirtækja á landsvísu.

„Eftirminnilegustu verkefnin voru að vinna fyrir íslenskan banka árið 2005, innrétting Kringlunnar þegar Kringlan og Borgarkringlan voru byggðar saman og þegar við bjuggum til útivistarverslunina Nanoq. Árið 1997 byggði ég fyrsta húsið til sölu á almennum markaði hér á Akranesi í tíu ár og það var einnig fyrsta framkvæmdin sem var samþykkt í byggingarnefnd í þrjú ár. Það tók mig um ár að selja húsið. Síðan þá hef ég byggt um 50 íbúðir, raðhús og einbýlishús.“

Lóðaskortur vandamál

Fyrirtækið hefur komið að ýmiss konar uppbyggingu húsnæðis á Akranesi og víðar. Starfsemin einkennist þó aðallega af viðhaldi og breytingum, svo sem að endurinnrétta og gera breytingar á húsnæði. Helstu verkefni fyrirtækisins í dag eru endurnýjun á þaki gömlu skipasmíðastöðvar Þorgeirs og Ellerts, vinna að lagfæringum og breytingum á Korputorgi og endurbygging álmu í Grundaskóla. Samtals starfa fjórtán manns hjá fyrirtækinu. Þráinn segir það mikla áskorun að fá nóg að hæfu fólki til vinnu.

„Við erum ekki með trésmiðjuverkstæði lengur. Við þjónustum einkaaðila, sveitarfélög og ríkið. Við erum að endurinnrétta skóla, breyta húsnæði og bara það sem til fellur í þessari verktakastarfsemi. Við sjáum í rauninni eingöngu um svoleiðis verkefni, við erum ekki í neinum smíðum um þessar mundir. Við höfum að vísu verið að reisa blokkir úr steyptum einingum og öðru slíku.“

Þráinn segir lóðaskort hafa verið viðvarandi vandamál en hann er vongóður um að úr því muni rætast á næstu árum.

„Reksturinn mun ganga svona upp og niður, þessi iðnaður er þannig. Hér hefur verið lóðaskortur eins og víða. Við höfum ekkert getað byggt þar sem það hefur ekki verið neitt framboð á lóðum til þess að byggja á síðasta ári, en það fer nú vonandi að rætast úr því. Eins og sést í fréttum þá er Akranesbær að kaupa mjög heppilegt land til íbúðauppbyggingar og ekki ætla menn að láta það standa. Við erum alltaf tilbúnir, það er ekkert öðruvísi en það.“

Covid-árin þau bestu

Þráinn segir að faraldursárin 2020 og 2021 hafi verið bestu ár fyrirtækisins síðan það var stofnað árið 2011.

„Einhvern veginn hefur það lukkast þannig. Ég hef enga einhlíta skýringu á því. Það var bara mikið að gera og ef maður segir ekki of oft nei þá er alltaf nóg að gera. Árið í ár verður minna en árið í fyrra til dæmis. Það hefur verið rólegra og maður finnur að það er aðeins farið að hægja á markaðinum, þetta er mun nær eðlilegu árferði en síðustu tvö ár voru. Faraldurinn hafði í raun lítil sem engin áhrif á okkur, ekki nema í upphafi, þá lokuðum við öllu í fjórar vikur en síðan hefur þetta gengið á fullu. Það rættist úr þessu ástandi nokkuð fljótt.“

Spurður út í tæknibreytingar sem fyrirtækið hafi innleitt síðustu ár skellir Þráinn hressilega upp úr.

„Í þessum bransa er lítið um tæknibreytingar miðað við starfsemi okkar í dag. En á sínum tíma vorum við með mjög tæknilega fullkomið trésmiðjuverkstæði en þetta er allt öðruvísi núna. Eina tæknibreytingin á síðustu árum er að þú ferð úr stillans í lyftu,“ segir Þráinn léttur í lund.

„Þannig er þetta nú bara, hamarinn er alltaf eins, hann breytist ekki mikið milli ára. Sögin og borvélin fara úr rafmagnskapli í batterí, þetta er eina tækniþróunin í þessum geira.“

Kallaður afinn

Er markmiðið að vera framúrskarandi fyrirtæki?

„Við erum búinn að vera framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2019. Það er ekki okkar markmið að komast á listann heldur einungis að vera réttum megin við strikið. Það kemur til með því að halda sér ofan við núllið, þó að það sé ekki alltaf stórt. Þetta náttúrlega byggist á því, þetta er ekki spurning um veltu heldur hvað verður eftir af henni.“

Þráinn leggur mikið upp úr því að góður starfsandi ríki í fyrirtækinu og tekur fram að hann sé kallaður afinn í fyrirtækinu.

„Starfsmannafjöldinn hefur verið upp og niður eins og reksturinn, en starfsandinn er alveg ágætur. Ég er afi þeirra allra, liggur við, og í einhverjum fíflagangi er ég oft kallaður afi.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar