335 Bústólpi ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 222
Landshluti Norðurland eystra
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Framleiðsla húsdýrafóðurs
Framkvæmdastjóri Hólmgeir Karlsson
Fyrri ár á listanum 2011–2021
Framúrskarandi 2022

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 1.598.623
Skuldir 563.552
Eigið fé 1.035.071
Eiginfjárhlutfall 64,7%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 6
Eignarhlutur í öðrum félögum 4
Endanleg eign í öðrum félögum 4

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Matvælaframleiðsla

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Þekkja viðskiptavinahópinn vel

Hólmgeir segir ráðgjöf og fræðslu vera stóran hluta af markaðsstarfi …
Hólmgeir segir ráðgjöf og fræðslu vera stóran hluta af markaðsstarfi Bústólpa.

Þetta ár hefur verið krefjandi fyrir fyrirtæki á fóður- og áburðarmarkaði vegna þeirrar röskunar sem varð vegna Úkraínustríðsins. Hólmgeir Karlsson er framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri og segir hann að stærsta áskorunin hafi verið að tryggja að nægilegt magn af hráefni bærist til landsins.

„Fyrirtæki reyna að verja sig gegn sveiflum með framvirkum samningum en þegar svona áföll dynja á þá eru svokölluð „force majeure“ ákvæði virkjuð og ekki lengur hægt að stóla á gerða samninga. Frá því í febrúar og fram á vor stóðum við í mikilli baráttu, bara við það að útvega hráefni til framleiðslunnar.“

Bústólpi varð að sjálfstæðu fyrirtæki um aldamótin en var þar á undan deild hjá Kaupfélagi Eyfirðinga og nær saga starfseminnar aftur til seinni heimsstyrjaldar. Framleiðsla á kjarnfóðri fyrir landbúnað er aðaluppistaðan í rekstrinum en Bústólpi starfrækir einnig verslun með rekstrarvörur, sáðvörur og áburð. Þá selur fyrirtækið sænsku mjaltavélarnar frá DeLaval og annast þjónustu á þeim búnaði um land allt, en helsta markaðssvæði Bústólpa fyrir fóðurvörurnar er hins vegar Norður- og Austurland.

Til að gefa lesendum hugmynd um umfang starfseminnar þá framleiddi Bústólpi á síðasta ári 17.300 tonn af kjarnfóðri og seldi á milli 5-6.000 tonn af kornvöru til svínabænda og til framleiðenda fiskafóðurs. Hefur fyrirtækið verið á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki í tólf ár samfleytt.

Gott fólk og góð staðsetning

Hólmgeir skrifar árangurinn m.a. á að tekist hefur að byggja fyrirtækið upp jafnt og þétt og auka hagkævmni í framleiðslunni með tæknivæðingu.

„Við erum mjög sveigjanleg og náum að fylgja vel þörfum viðskiptavina okkar, þökk sé góðum hópi starfsmanna. Helsti styrkleiki okkar er sá að hafa tekist að fá til starfa fólk með ólíka menntun og reynslu sem saman myndar teymi sem getur leyst hlutina hratt og vel,“ segir hann.

„Við erum markaðsdrifið framleiðslu- og sölufyrirtæki sem leggur mikla áherslu á trygg langtímaviðskipti. Við þekkjum viðskiptamannahópinn okkar vel og stór hluti af markaðsstarfinu felst í fræðslu og ráðgjöf við viðskiptavinina, m.a. með heysýnatöku, mati á gróffóðri, fóðurráðgjöf og ráðgjöf um heilbrigði og velferð dýra.“

Verðhækkanir tengdar Úkraínustríðinu þrengja að fjárhag íslenskra bænda og segir …
Verðhækkanir tengdar Úkraínustríðinu þrengja að fjárhag íslenskra bænda og segir Hólmgeir að bændasamfélagið þurfi að finna að þjóðin muni standa við bakið á bændum.

Samkeppnin er hörð og segir Hólmgeir að heppileg staðsetning fóðurverksmiðjunnar skipti líka máli. Þau aðföng, sem verksmiðja Bústólpa notar, er landað beint úr flutningaskipunum og þannig tekst að halda flutningskostnaði í lágmarki.

„Þegar hráefnið er komið til okkar er flutningskostnaðurinn ekki nema um 9 kr. á kíló, en sú hágæðavara sem við framleiðum selst á um það bil 100 kr. kílóið og vega flutningarnir því þungt í rekstrinum. Ef við þyrftum að flytja kornið milli staða á landi eftir löndun væri framlegðin fljót að rýrna og samkeppnisstaðan að veikjast.“

Lágt raforkuverð á Íslandi stuðlar einnig að því að Bústólpi geti boðið samkeppnishæft verð en búið er að rafvæða nær alla ferla í fóðurframleiðslunni.

„Við keppum við kjarnfóðurframleiðendur á meginlandi Evrópu sem núna standa frammi fyrir miklum hækkunum á orkuverði. Þó við séum kannski stór í íslensku samhengi þá erum við ósköp smá í samanburði við evrópsku framleiðendurna og náum ekki sömu stærðarhagkvæmi, en í dag má ætla að keppinautar okkar í Evrópu séu að borga allt að tífallt hærra verð fyrir rafmagnið en við,“ segir Hólmgeir.

Hann bætir við að hvorki úrgangur né loftmengun skapist við framleiðslu fyrirtækisins og að allur fóðurbílaflotinn uppfylli einnig Euro-6 mengunarstaðalinn.

Voru heppin í þetta skiptið

Greinendur hafa verulegar áhyggjur af áhrifum Úkraínustríðsins á landbúnað um allan heim. Úkraína er oft kölluð matarkista Evrópu. Landbúnaðurinn þarlendis er mjög öflugur og þar hefur verið framleitt kornmeti og olíur í stórum stíl. Rússland er sömuleiðis veigamikið kornframleiðsluland og segir Hólmgeir að í venjulegu árferði rækti löndin tvö um 25-30% af allri þeirri kornvöru sem Evrópa notar. Framleiðsla á tilbúnum áburði er líka í uppnámi enda Rússland einn helsti framleiðandi sumra þeirra efna sem áburðarframleiðendur þurfa á að halda.

„Það varð okkur til happs að rétt áður en rússnesk stjórnvöld settu útflutningsbann á þessa hrávöru höfðu okkar áburðarhráefni borist samstarfsaðilum okkar í Finnlandi þar sem áburðurinn er blandaður og settur á sekki. Nokkur óvissa er því enn um hvernig framleiðendum okkar tekst að leysa vandann fyrir áburðarvertíðina næsta vor.“

Mitt í þessari hringiðu stendur bændastéttin og þarf að glíma við æ dýrari aðföng.

„Það er strax orðið dýrara fyrir bóndann að rækta sitt gras og korn, og fóðra dýrin en það mun taka tíma fyrir neytendur að sætta sig við að borga þurfi hærra verð fyrir afurðirnar,“ segir Hólmgeir og bætir við að bæði kórónuveirufaraldurinn og stríðið í Úkraínu hafi þó hleypt nýju lífi í umræðuna um fæðuöryggi Íslands.

„Það hefur runnið upp fyrir þjóðinni hve mikilvægt það er að við séum fær um að útvega stóran hluta af þeim matvælum sem við þurfum, og að við hlúum að innlendri matvælaframleiðslu.“

Þurfum að standa með bændum

Hólmgeir tekur undir að það sé hægara sagt en gert að finna réttu lausnina, en hann segir það útbreiddan misskilning að íslenskir bændur njóti rausnarlegra ríkisstyrkja.

„Það sem bændurnir okkar standa frammi fyrir er samkeppni við ódýrari vöru sem kemur frá fjarlægum löndum þar sem kröfurnar til framleiðslunnar geta verið allt aðrar og launakjör fólks eru mun lakari. Nágrannaþjóðir okkar vernda líka sinn landbúnað með stuðningi. Sem dæmi má nefna að íslensk kornrækt, sem nýtur nánast engra styrkja, þarf að keppa við innflutning frá bændum í Evrópu sem fá svo háa styrki að upphæðirnar slaga upp í að vera helmingurinn af því sem íslensku bændurnir gætu vænst þess að fá fyrir sitt korn,“ segir hann.

„Ég er mjög fylgjandi frelsi í viðskiptum, en við hljótum að spyrja hvernig frelsið á að virka við þessar aðstæður og hvernig leyfa má íslenskum bændum að njóta meiri sanngirni á samkeppnismarkaði þar sem landbúnaðurinn í löndunum allt í kringum okkur er á bullandi styrkjum.“

Líklegt er að næstu ár verði íslenskum bændum erfið og gæti farið svo að sumir hreinlega bregði búi. „Sauðfjárræktin hefur staðið mjög illa um langt skeið og þar er virkileg hætta á að menn gefist upp ef þeir sjá ekki ljósið við hinn enda ganganna. Það sem bændasamfélagið þarf er að fá að upplifa að þjóðin ætli að standa með bændum í gegnum þessar raunir.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar