Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 6 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Framleiðsla |
Starfsemi | Frysting fiskafurða, krabbadýra og lindýra |
Framkvæmdastjóri | Guðmundur Kristjánsson |
Fyrri ár á listanum | 2010–2021 |
Eignir | 117.475.725 |
Skuldir | 58.671.000 |
Eigið fé | 58.804.725 |
Eiginfjárhlutfall | 50,1% |
Þekktir hluthafar | 20 |
Endanlegir eigendur | 69 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 21 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 49 |
Guðmundur Kristjánsson í Brimi segir að í ljósi sterkrar eiginfjárstöðu félagsins sé Brim í kjörstöðu til þess að halda áfram að styrkja mikilvægustu stoðir félagsins. Félagið endurnýjaði húsnæði og vinnslubúnað í Norðurgarði í Reykjavík sumarið 2020 sem hefur leitt til meiri sveigjanleika í framleiðslu og hagkvæmni í rekstri.
„Búnaðurinn var að stórum hluta kominn til ára sinna en mikil tækniþróun hefur orðið í bolfiskvinnslu síðustu fimm til sjö árin eða síðan Brim tók inn fyrstu vatnsskurðarvélina fyrir um tíu árum,“ segir Guðmundur.
Hann segir Brim hafa lagt mikla áherslu á að straumlínulaga flæði hráefnis og afurða í gegnum fiskvinnsluna, með það að markmiði að bæta meðhöndlun og hámarka gæði afurða. Allt frá því að fiski er landað þar til honum er pakkað inn og skipað til útflutnings.
„Að auka sjálfvirkni og sveigjanleika í framleiðslu bætir þar með vinnuaðstöðu starfsfólks. Helstu breytingar eru vatnsskurðarvélarnar sem létta mjög störf á snyrtilínum og gera það mögulegt að skera flök mjög nákvæmlega niður í mismunandi afurðir. Þannig náum við að hámarka verðmæti hvers fiskflaks með tilliti til þeirra pantana og samninga sem liggja fyrir hverju sinni.“
Guðmundur segir sjálfvirknivæðingu hafa spilað stórt hlutverk í aukinni hagkvæmni en nú sjá vélmenni mestmegnis um það að pakka ferskum sjávarafurðum í umbúðir, frágang afurða og að stafla afurðakössum sjálfvirkt á bretti.
„Nýir og öflugir lausfrystar gera það mögulegt að halda góðu flæði í vinnslunni hvort sem við erum að framleiða frystar eða ferskar afurðir. Sveigjanleiki í vinnslu á ferskum og frystum afurðum er mikilvægur á síbreytilegum mörkuðum til þess að hámarka verðmæti sem við fáum að landi,“ segir Guðmundur. „Innleiðingin á nýjum tæknibúnaði hefur gengið mjög vel en með vélmennavæðingu og meiri sjálfvirkni hafa afköst á vinnustund aukist og einnig hefur nýting á verðmestu afurðum batnað sem skilar sér í hærra afurðaverði.“
Guðmundur segir rekstrarárið hafa gengið vel, fyrri hluti ársins hafi verið í samræmi við væntingar þrátt fyrir mikla óvissu á alþjóðamörkuðum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og versnandi efnahagshorfur í heiminum.
Síðustu tvö ár krefjandi
„Loðnuvertíðin á árinu var góð. Það hafði jákvæð áhrif á rekstur félagsins en á móti kemur að dregið var úr veiðiheimildum á þorski og karfa. Brim hefur fjárfest í skipum, aflaheimildum, hátæknibúnaði og í erlendum sölufélögum, þær fjárfestingar hafa gert okkur betur kleift að takast á við sveiflur og nýta tækifærin sem felast í breytingum. Því hefur verið góður og öruggur vöxtur í starfsemi Brims og efnahagurinn er traustur,“ segir hann.
Aðspurður segir Guðmundur sorglegt að horfa upp á stríðsástand í Evrópu. Stríðið í Úkraínu hefur að hans sögn ekki haft mikil fjárhagsleg áhrif á rekstur félagsins en þó hafi rekstrarkostnaður aukist. Einnig hafi stríðið haft áhrif á afurðamarkaði erlendis.
„Viðskiptabann árið 2014 á Rússland hafði umtalsverð áhrif á starfsemina en þá sýndi starfsfólk okkar eina ferðina enn hversu öflugt það var og brást hratt við og fann nýja markaði fyrir afurðir okkar.“
Guðmundur segir síðustu tvö ár hafa verið mjög krefjandi fyrir félagið og mikið hafi reynt á starfsfólk félagsins. Alls starfa um 850 manns hjá félaginu.
„Við sluppum við skakkaföll en það kom vel í ljós hversu mikilvægt það er að hafa gott skipulag og gott starfsfólk með mikla reynslu til að takast á við þau snöggu umskipti sem urðu.“
„Það er stundum sagt að áskoranir í sjávarútvegi á Íslandi séu helstar ótíð, ógæftir og pólitík. En um þessar áskoranir gildir það sama og breyttar aðstæður á mörkuðum og í heiminum, að við sem störfum í einu litlu fyrirtæki ráðum litlu þar um,“ segir Guðmundur spurður um helstu áskoranir félagsins um þessar mundir.
Hann segir helsta verkefni Brims á hverju ári vera að skipuleggja veiðar og vinnslu í ljósi úthlutunar á veiðiheimildum.
„Okkar verkefni er að styrkja stoðirnar með góðu starfsfólki og traustum rekstri til að standa sterk þegar gefur á. Ég vona þó að stjórnvöld beri gæfu til þess að skapa sjávarútvegi stöðugt og fyrirsjáanlegt starfsumhverfi en það hefur margoft sýnt sig að það eflir fyrirtækin og alla nýsköpun bæði í greininni sjálfri og tengdum greinum. Það er mikilvægt að arðurinn sem greinin skapar leggi grunninn að verðmætasköpun í framtíðinni,“ segir Guðmundur.
Umhverfismál eru nú í alþjóðlegum brennidepli og svokölluð ESG-einkunn æ mikilvægari fyrir fjárfesta. Guðmundur segir starfsemi Brims ríma vel við þessi markmið, þar sem starfsemin byggist á sjálfbærri nýtingu á dýrmætri og viðkvæmri náttúruauðlind.
„Því eru umhverfismál í stafni hjá fyrirtækinu. Við lítum svo á að við höfum miklu ábyrgðarhlutverki að gegna og því höfum við sett okkur umhverfisstefnu í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.“
Guðmundur segir félagið sífellt leita leiða til að fullvinna afurðir betur. Sérstök áhersla er lögð á að endurnýta og endurvinna allan úrgang.
„Þá er orkunotkun félaginu hugleikin og við erum stöðugt að vinna að því að draga úr olíunotkun og auka notkun á endurnýjanlegri orku. Þá hefur félagið fjárfest mikið í nýjum skipum, nýrri tækni og nýsköpun sem eykur sjálfbærni. Brim var fyrst sjávarútvegsfyrirtækja til að gera grein fyrir umhverfisþáttum í starfi félagsins í árlegri umhverfis- og samfélagsskýrslu. Brim hefur gefið út og birt skýrslu yfir ófjárhagslega þætti í fimm ár samfleytt og þar má sjá hvernig umhverfisáherslur félagsins birtast í verki. Þá var Brim útnefnt umhverfisfyrirtæki ársins árið 2019,“ segir hann.
– Hvernig er tilfinningin að vera í hópi Framúrskarandi fyrirtækja?
„Það er góð tilfinning. Það er ánægjulegt þegar eftir því er tekið sem vel er gert. Ég vil hins vegar segja að ég hef alltaf vitað að í Brimi starfar framúrskarandi starfsfólk og því má segja að staðfestingin hafi ekki komið mér á óvart.“
Styðja vel við íslenska tungu
Guðmundur segir Brim vera félag sem beri mikla ábyrgð og hafi skyldum að gegna gagnvart nærumhverfi sínu. Því taki fyrirtækið þátt í samfélagsverkum og umræðum á hverjum tíma.
„Í mínum huga er fyrirtækið, fólkið og samfélagið eitt. Okkar mikilvægasta hlutverk í þágu samfélagsins er að standa að sjálfbærum og arðbærum rekstri sem skapar vel launuð og eftirsótt störf og fyrirtækið fjárhagslega sterkt,“ segir hann.
Guðmundur tekur fram að það sé metnaðarmál hjá félaginu að styðja við íslenska tungu. Því sé Brim bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags.
„Brim hefur auk þess stutt lestrarátak með bókagjöfum til allra leikskóla landsins. Þá stendur félagið fyrir íslenskunámi fyrir allt starfsfólk fyrirtækisins sem ekki hefur íslenskuna að móðurmáli.“
Guðmundur tekur fram að verkefnin hafi verið af margvíslegum toga. Til dæmis á Akranesi, þar sem félagið stóð á árum áður fyrir umfangsmikilli útgerð og fiskvinnslu, en í dag er félagið í nánu samstarfi við bæjarstjórn Akraness um uppbyggingu á landsvæði félagsins á Breiðinni, sem er vestasti hluti bæjarins.
„Þegar er farin af stað blómleg starfsemi nýsköpunarfyrirtækja í gamla fiskvinnsluhúsi Brims og þar er starfrækt Nýsköpunarsmiðjan FabLab sem er samstarfsvettvangur skóla og fyrirtækja. Þá var á árinu efnt til samkeppni um nýtt skipulag og uppbyggingu á atvinnu- og íbúðarhúsnæði á Breiðinni. Fjöldi vandaðra og góðra tillagna barst, bæði frá innlendum og erlendum aðilum, og nú er að hefjast undirbúningur að fyrstu stigum þeirrar uppbyggingar. Þannig lítur Brim á það sem sitt hlutverk að stuðla að nýsköpun og framþróun atvinnulífs í takt við breytta atvinnuhætti. Að auki er rétt að nefna að þar sem fyrirtækið rekur starfsstöðvar hefur það lengi vel stutt margvíslega starfsemi björgunarsveita, íþrótta og menningarstarfsemi.“