Sex í hópi grunaðra í Skeljungsmáli

Mynd úr safni af merki Skeljungs.
Mynd úr safni af merki Skeljungs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölgað hefur í hópi þeirra sem hafa réttarstöðu grunaðs í Skeljungs-málinu og eru þeir nú sex talsins. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Undanfarna mánuði hafa verið teknar vitnaskýrslur af starfsmönnum Glitnis sem komu að lánveitingum og fyrirgreiðslum í málum er varða viðskipti Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Arnar Þórðarsonar með Skeljung fyrir um áratug síðan. 

„Ég get staðfest að það hafa átt sér stað yfirheyrslur vegna málsins á síðustu vikum. Málið er ekki komið úr rannsókn en rannsóknin er nokkuð vel á veg komin,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við Viðskiptablaðið.

Spurður um það hvort breyting hafi orðið á fjölda einstaklinga með réttarstöðu grunaðs manns svarar Ólafur því að sá hópur telji nú sex. Ekki sé hins vegar unnt að gefa upp á þessum tímapunkti samsetningu þess hóps. Fyrir tveimur árum höfðu fimm réttarstöðu grunaðs í málinu.

Í frétt Morgunblaðsins fyrir tæpum tveimur árum kom fram að Fyrrverandi eigendur og stjórnendur olíufélagsins Skeljungs sættu rannsókn Héraðssaksóknara vegna meintra brota sem m.a. lúta að umboðs- og skilasvikum. Rannsóknin mun einkum beinast að meintri ólögmætri meðferð veða eftir að Íslandsbanki hafði selt félagið, auk þess sem kaup fyrrverandi starfsmanna Íslandsbanka á P/F Magn í Færeyjum eru til rannsóknar.

Í kjölfar umfangsmikilla aðgerða, sem m.a. fólu í sér handtökur og húsleitir, fengu fimm einstaklingar stöðu sakbornings á þeim tíma. Það eru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, sem keyptu fyrirtækið á sínum tíma, Einar Örn Ólafsson sem annaðist sölu fyrirtækisins fyrir hönd fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka og gerðist í kjölfarið forstjóri þess, og einnig þau Halla Sigrún Hjartardóttir, fyrrum stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, og Kári Þór Guðjónsson. Þau Halla og Kári störfuðu bæði hjá Íslandsbanka á þeim tíma þegar Svanhildur Nanna og Guðmundur keyptu fyrirtækið. Síðar kom í ljós að þau höfðu, ásamt Einari Erni, auðgast verulega á viðskiptum með færeyska olíufélagið P/F Magn sem var í eignartengslum við Skeljung.

Forsögu málsins sem leitt hefur til rannsóknar saksóknara má rekja til umfangsmikillar kæru sem Íslandsbanki lagði fram gagnvart embættinu árið 2016. Bankinn seldi minnihluta sinn í Skeljungi, 49% árið 2009, en áður hafði forveri bankans, Glitnir, selt meirihluta í félaginu í miðju hruninu.

Íslandsbanki var hins vegar ekki aðeins seljandi fyrrnefnds hlutar heldur einnig stærsti lánardrottinn fyrirtækisins um langt skeið.

Meðal þess sem Héraðssaksóknari hefur nú til rannsóknar er hvernig eignarhlutir í Skeljungi skiptu um hendur á árunum eftir að hann komst úr höndum Glitnis og Íslandsbanka. Leikur grunur á því að fléttur í tengslum við eignarhaldið hafi rýrt veð sem Íslandsbanki gekk að þegar eignarhaldsfélagið Skel Investment var tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið hélt utan um fyrrnefndan 51% eignarhlut Svanhildar Nönnu og Guðmundar í Skeljungi. Í kjölfar þess að Skeljungur var seldur á ríflega 4 milljarða króna árið 2013 var ljóst að félagið gæti ekki staðið í skilum með allar skuldir sínar gagnvart Íslandsbanka. Á þeim tíma hafði eignarhlutur Skel Investment í Skeljungi hins vegar rýrnað verulega og komist undir forræði annarra félaga sem þau hjónin áttu. Mun rannsóknin m.a. lúta að því hvort bankinn hafi farið á mis við hundruð milljóna vegna þessara viðskipta.

Rannsókn saksóknara mun einnig lúta að þeirri atburðarás sem leiddi til þess að þau Halla Sigrún, Kári Þór og Einar Örn eignuðust hvert um sig 22% hlut í P/F Magn. Gögn benda til þess að fyrir hlutinn hafi þau greitt 24 milljónir króna en síðar selt hann á nærri 900 milljónir hvert.

Efnisorð: Skeljungur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK