c

Pistlar:

22. júní 2018 kl. 12:41

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Útboð Arion banka – 36 vangaveltur

 1. Samkvæmt Kjarnanum var útboðið vel heppnað: „Skrán­ing Arion banka á markað hefur heppn­ast vel og er mik­il­væg fyrir íslenskt efna­hags­líf.“
 2. Seldir voru hlutir fyrir 39 milljarða króna í bankanum. Allir hlutir seldust upp, það var meira að segja margföld umframeftirspurn.
 3. Þó fengu færri en vildu. Almennir fjárfestar (almenningur) máttu skrá sig fyrir 15 milljónir króna á hverja kennitölu en í það minnsta 150 þúsund krónur. Hver fékk tæpar 170 þúsund krónur, rétt fyrir ofan lágmarksáskrift.
 4. Samkvæmt Herði Ægissyni hjá Fréttablaðinu glataðist þar tækifæri til að auka traust almennings til kaupa í hlutabréfum, sem er enn í lágmarki (hvern skyldi undra?).
 5. Það var aðeins einn viðskiptadagur frá því að almennum fjárfestum var tilkynnt hversu mikið þeir þyrftu að punga út þangað til að greiða varð fyrir hverja áskrift.
 6. Það þýddi að þeir gátu ekki selt önnur bréf fyrir væntum kostnaði í samræmi við þá úthlutun sem þeir fengu þar sem að greiðsla fyrir sölu hlutabréfa tekur 2 virka daga.
 7. Viðskipti með bréf Arion banka hófust sama dag og fólki var tilkynnt um úthlutun sína. Það þýddi að fólk vissi hér um bil fyrir víst hvort að það væri tapsáhætta á því að taka þátt í útboðinu eða ekki.
 8. Ég hef aldrei upplifað fyrirkomulag í útboði eins og lýst er í liðnum hér að ofan.
 9. Íslenskir ífeyrissjóðir fengu lítið af því sem þeir báðu um. Samkvæmt Morgunblaðinu fengu þeir aðeins um 16% af því sem þeir skráðu sig fyrir.
 10. Samkvæmt Viðskiptablaðinu þá eru lífeyrissjóðirnir ekkert sérstaklega sáttir með þessa úthlutun.
 11. Auk þess er enginn viðskiptavaki enn til staðar. Það þýðir að markaðsmyndun á markaði er ónákvæmari en ella.
 12. Ríkið fær fyrstu 84 milljarðanna sem fást í útboðinu.
 13. Samkvæmt uppgjöri fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaskilyrða þá skiptist söluvirði af sölu Arion banka umfram 100 milljörðum króna á milli núverandi eiganda Arion banka og ríkisins. Afkomuskiptingin er með þeim hætti að ríkið fær 1/3 af söluvirði Arion banka milli 100-140 milljarða króna, helminginn á milli 140-160 milljarða króna og ¾ umfram 160 milljörðum króna.
 14. Núverandi eigendur Arion banka (kröfuhafar) hafa því mestan hag af sölu upp að 140 milljörðum króna, eftir það fer hagur þeirra við sölu á bréfunum þverrandi.
 15. Ríkið átti 13% hlut í bankanum. Samkvæmt forkaupsrétti helsta eiganda Arion banka var ríkið skuldbundið til að selja hlutinn á 0,81 af bókfærðu virði eigin fjár bankans. Margir voru ósáttir við þá sölu og þurfti Bankasýsla ríkisins meðal annars að skrifa rökstuðning fyrir því að selja þurfti hlutinn á svo lágu gengi.
 16. Ríkið féll því til viðbótar frá forkaupsréttinum í nýliðnu almennu útboði.
 17. Útboðsgengið var 0,67 af bókfærðu virði eigin fjár bankans.
 18. Goldman Sachs auk þriggja vogunarsjóða keyptu 29,15% hlut í bankanum á 0,81 af bókfærðu virði bankans í upphafi árs 2017.
 19. Miðað við ríkistryggða vexti uppreiknaða til dagsins í dag samsvarar það til þess að fjárfestingarsjóðirnir keyptu hlutinn á um það bil 0,85 af bókfærðu virði bankans.
 20. Fjárfestar í útboðinu fengu því að kaupa (afar lítinn) hlut í Arion banka á tæplega fjórðungs lægra gengi en Goldman Sachs keypti hlut sinn í bankanum.
 21. Búið er að selja hlut í bankanum fyrir mest allan hlutann af því sem að rennur beint til ríkisins. 49 milljarða króna fengust frá sölunni til Goldman Sachs og félaga og 39 milljarða króna í útboðinu, eða samtals 88 milljarða króna.
 22. Búið er að selja um 55% af Arion banka. Almenningur veit þó ekki hver stór hluti eiganda bankans er.
 23. Íslendingar virðast hafa verið í minnihluta af fjárfestunum. Athygli vekur að aðilar sem tengjast SEB hafa fengið stóran hlut.
 24. Núverandi eigendur Arion banka eiga stóran hlut líka í gegnum SEB. Samt sem áður á SEB fyrir hönd annarra fjárfesta um 14% í Arion banka (sjá síðu 5). Það er tæplega 60% hlutur af nýlegu útboði, en hugsanlega hafa fyrri eigendur fært einhvern hluta eigna sinna yfir til SEB. Ég sé í fljótu bragði þó ekki að mikið rými hafi verið fyrir slíkar færslur miðað við núverandi og fyrrverandi hluthafalista.
 25. Eigið fé Arion banka fyrir hvern hlut er í dag 204 milljarða krónur. Það svarar til þess að bókfært virði hvers hlutar er 112 krónur að því gefnu að hlutabréf sem Arion banki keypti af ríkinu verði að mestu lögð til hliðar.
 26. Núverandi eigendur Arion banka selja bankann á markaðsvirði sem svarar til 160 milljarða króna ef meðalgengi hans í söluferlinu er tæplega 0,8 af bókfærðu virði eigin fjár bankans.
 27. Strjál viðskipti (það er reyndar með ólíkindum hversu stjál þau eru) með bréf Arion banka í Kauphöllinni eru á genginu 86 krónur fyrir hvern hlut. Það samsvarar í kringum 0,76 af bókfærðu virði eigin fjár bankans.
 28. Hið lága gengi í Kauphöllinni í dag gæti myndað möguleika á að selja afganginn af bankanum á gengi undir 0,81 af bókfærðu virði hans nema að ríkið fari að kaupa bréfin.
 29. Af hverju kaupir ríkið ekki bréfin núna í Kauphöllinni þegar að gengið er undir 0,8 af bókfærðu virði eigin fjár hans?
 30. Ólíkt mörgum bönkum í dag þá eru vangaveltur um að sumar eigur bankans séu vanmetnir, jafnvel mikið, í bókum hans.
 31. Samkvæmt Kjarnanum gæti jákvæður mismunur verið allt að 40 milljarða króna.
 32. IFS telur að raunvirði bankans sé 0,83 af virði eigin fjár bankans og Capacent telur það vera 0,94.
 33. Gert er ráð fyrir að hæglega sé hægt að greiða hluthöfum í kringum 25% af eigið fé bankans út sem arð án sérstakra ráðstafanna, eða um 50 milljarða króna.
 34. Með útgáfu víkjandi lána er gert ráð fyrir að hægt sé að greiða 30 milljarða króna í viðbót sem arðgreiðslu.
 35. Það er með öðrum orðum líklegt að hluthafar fái 40% af hlut sínum í Arion banka greiddar út sem arð á næstunni, peningur sem nú býðst með verulegum afslætti.
 36. Ég er hluthafi í Arion banka, keypti bæði í útboðinu og hef bætt við mig hlutum í Kauphöllinni.
Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

Hægt er að skrá sig á póstlista með því að senda beiðni til marmixa@yahoo.com með "póstlisti" í Subject. 
 

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira