Stærstu fjárfestar landsins með 1,8%

mbl.is/Eggert

Fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins báru lítið úr býtum í hlutafjárútboði í Arion banka sem lauk á fimmtudag og tilkynnt var um á föstudaginn síðasta. Þannig er heildareign sjóðanna rétt undir 1,8% af útgefnu hlutafé bankans.

Sjóðirnir fjórir sem um er að ræða eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, en hrein eign sjóðsins (ásamt Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga sem rekinn er undir sama hatti) nam 825,7 milljörðum króna um nýliðin áramót, Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem átti 665 milljarða í hreina eign til greiðslu lífeyris um áramótin síðustu, Gildi, sem átti 517,4 milljarða, og Birta lífeyrissjóður, sem átti rúmlega 348 milljarða. Samtals áttu sjóðirnir því um síðastliðin áramót um 2.356 milljarða króna.

Ekki hefur verið gefið upp hversu miklu hlutafé sjóðirnir skráðu sig fyrir í útboðinu en heimildir Morgunblaðsins herma að áskriftir lífeyrissjóða hafi verið skornar niður um 84%.

Mest er hlutdeild Gildis eða 0,65% af útgefnu hlutafé bankans. Þá er LSR með 0,53%. Lífeyrissjóður verslunarmanna er með 0,4% og Birta 0,185%.

Við lokun markaða síðdegis í gær var markaðsvirði Arion banka um 172 milljarðar króna. Eignarhlutdeild sjóðanna í Arion banka nemur því rétt ríflega þremur milljörðum króna, eða sem nemur 0,013% af heildareignum þeirra. ses@mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir