c

Pistlar:

24. maí 2018 kl. 21:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvalárvirkjun - leikreglunum breytt

Þegar ljóst var að það yrði rifist um hverja einustu virkjanaframkvæmd á Íslandi var ákveðið að setja upp sérstakt ferli sem ætlað var að tryggja að sjónarmið sem flestra kæmust að við ákvörðun. Þannig urðu til lög um rammaáætlun. Rammaáætlun er verkfæri til að greiða úr ágreiningi um nýtingu landsins, og jafnframt samheiti yfir ákveðin lög, ferli og aðferðafræði sem hafa þróast samstíga gegnum tíðina til þess að leysa þetta verkefni á sem farsælastan hátt. Þann 14. janúar 2013 var samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar með öðlaðist rammaáætlun í fyrsta sinn lögformlegt gildi. Með þingsályktuninni lauk 2. áfanga rammaáætlunar, sem staðið hafði með hléum frá árinu 2003. Texta þingsályktunarinnar má finna á vef Alþingis. Í þingsályktuninni eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk.hval

Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokk 2. áfanga Rammaáætlunar. Rökstuðningur með flokkun hennar í orkunýtingarflokk var sá að Hvalárvirkjun var þá eini virkjunarkosturinn á Vestfjörðum sem var metinn af öllum faghópum og að hún skipti máli fyrir orkuöryggi á Vestfjörðum. Hér má lesa skilmerkilega rakningu á málinu. Í upphafi var gert ráð fyrir 35 MW virkjun en í núverandi áætlun er gert ráð fyrir 55 MW. Ljóst er að virkjunin festir byggð í sessi og styrkir orkuöflun á Vestfjörðum. Reyndar svo mjög að um byltingu verður að ræða. En þetta er ekki án fórna frekar en önnur mannvirki á Íslandi. Þess vegna var rammaáætlunarferlið sett í gang, til þess að meta kosti og lesti. En eins og oft áður, þegar kemur að framkvæmdum þá er leikreglunum breytt. Ekki dugar að fara í gegnum öll skipulagsstig, breyta hönnun eftir því sem við á og taka tillit til athugasemda. Samt skal efnt til ófriðar.

Átti að útvega rafmagn en dró úr mengun

Ég hef áður tekið dæmi af rafstöðin við Elliðaár sem var tekin í notkun sumarið 1921. Þar var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Í rafstöðinni má sjá tækjabúnað sem er sá elsti sinnar tegundar á landinu sem enn er í notkun. Segja má að rafmagnsframleiðslan í Elliðaánum hafi verið upphaf rafvæðingar bæjarins. Áður höfðu verið reknar litlar olíurafstöðvar og því var Elliðaárstöðin til að draga úr mengun á sínum tíma um leið og hún sparaði innflutt eldsneyti.

En af hverju er verið að rekja þetta hér? Jú stundum er vert að minnast þess að arður af framkvæmdum getur orðið annar og meiri en til var stofnað, þannig var í fyrstu aðeins ætlunin að afla rafmagns frá Elliðaárstöðinni en um síðir dró hún verulega úr mengun. Í dag eru mannvirkin óumdeilur hluti af umhverfinu, rétt eins og til dæmis Sognsvirkjanirnar. Það væri forvitnilegt að kanna hug íbúa í nágreninu; hvort þeir myndu vilja láta rífa mannvirkin við Elliðaárnar eða láta þau standa. Það væri vel mögulegt að rífa stíflu og hús og færa umhverfið aftur til fyrra horfs. Sá er þetta skrifar hefur efasemdir um að íbúarnir myndu vilja það svo tamt er þeim orðið að líta á mannvirkin sem hluta af umhverfinu. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr þeim breytingum sem mannvirki hafa á náttúruna en fráleitt er að tala eins og margir náttúruverndarsinnar sem láta stundum eins og allt sé lagt í rúst og ekkert sé afturkræft. Í Elliðaárdal væri hægt að færa allt til fyrra horfs kysu íbúar það og hugsanlega án mikils kostnaðar þar sem önnur og arðbærari orkumannvirki hafa tekið við.

Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða („rammaáætlun“) hvílir á hugmyndafræðilegum grunni sjálfbærrar þróunar. Þar er fjallað um sjálfbærni og sjálfbæra þróun og einnig um helstu hugtök og vísindi sem máli skipta fyrir faglega vinnu við áætlunina. Þar sem rammaáætlun á að sætta mismunandi sjónarmið er talið mikilvægt að skoða málin á sem breiðustum grundvelli og styðjast við þekkingu úr fjölmörgum greinum raun- og hugvísinda. En þegar niðurstaða liggur fyrir eftir vandaða vinnu skal öllu breytt, það sjáum við nú við Hvalárvirkjun.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.