c

Pistlar:

8. júlí 2018 kl. 20:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bjartsýn rödd á Facebook!

Gerðist nýlega þátttakandi í hópnum „heimur batnandi fer” á Facebook. Hef stundum leyft mér að taka upp slík sjónarhorn þegar svartagallsrausið virðist ætla að taka yfir. Sumum kann að þykja undarlegt að taka undir bjartsýnisleg viðhorf eða deila upplýsingum sem byggjast ekki alfarið á neikvæðustu útgáfunni af tilverunni hverju sinni. Það er í það minnsta ljóst að ekkert nýtt stjórnmálaafl verður byggt á slíkri hugsun! Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar voru 16 framboð í Reykjavík. Flest þau nýju sögðu okkur að við misskildum tilveruna hrapalega ef við héldum að allt væri í lagi. Auðvitað er ekki allt eins og það á að vera en að ástandið væri eins slæmt og mörg nýju framboðin reyndu að segja kjósendum ja, það kom manni nokkuð á óvart.bjart

Að aðhyllast bjartsýnisleg viðhorf byggist ekki endilega á heimspekilegri aðferð eða nálgun. Fyrir hvern bjartsýnan heimspeking finnst ábyggilega einn svartsýnn. Í heimi vísindanna togast svartsýni og bjartsýni á. Sumir sjá lausnir þar sem aðrir sjá vanda. Þannig er heimur raunvísindanna. Trúarbrögð færa heldur enga lausn, flest hver byggjast á einhverskonar hringrás á milli sköpunar og eyðingar. Frjáls vilji er ekki hátt skrifaður í heimi trúarbragðanna. Hann er örugglega ofmetin að flestu leyti en það er bjartsýnislegt viðhorf að láta sig dreyma um hann. Við getum hins vegar sjálf ráðið ansi miklu um það hvernig okkur líður.

Inn á áðurnefndri Facebook-síðu er bent á að megin markmið hópsins sé „...að benda á það góða og jákvæða sem er allt í kringum okkur, hluti sem við tökum kannski ekki eftir dagsdaglega. Hérna á ekki heima nein svartsýni eða bábilja, né það sem má kalla óttastjórnun. Það er nóg af svoleiðis grúppum og þessi verður laus við það.” Ég játa að sumt af þessu skil ég ekki alveg, eins og orðið óttastjórnun en ég er eigi að síður hrifinn af viðleitninni til að gefa bjartsýninni rödd. Það má líka ágætlega sjá af ýmsum þeim innleggjum sem finna má á síðunni og ganga gegn þeim veruleika sem borin er á borð fyrir okkur dags daglega. Meðal annars af fjölmiðlum. Eins ágætir og fjölmiðlar eru þá er þeim neikvæðni í blóð borin. Það lýtur að eðli frétta sem að hluta til snúast um fórnarlöm frávikanna eins og Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, kallaði það. Með öðrum orðum, fólk verður ekki að fréttaefni fyrr en vandamál steðja að. Þetta er að hluta til rétt en segir ekki alla söguna. Þessi staðreynd er hins vegar ekki algild afsökun fyrir því hve neikvæðir fjölmiðlamenn eru oft.

Hugsanleg skýring á þessari inngrónu svartsýni og neikvæðni samfélagsins gæti verið sú að fólk veit ekki lengur hvar hamingjuna er að leita og kann ekki að gleðjast yfir því sem það hefur nú þegar. Það er eitthvað sem við Íslendingar mættum hugsa þegar við byrjum að tala um „ónýta innviði.” Þó margt megi bæta og laga þýðir það ekki endilega að það sem fyrir er sé ónýtt. Öfundin er sterkt afl í þjóðfélagsumræðunni þó miklu sjaldnar sé minnast á hana en græðgina. Og teljast þó báðar þessar hvatir til dauðasynda, svo því sé nú haldið til haga. Öfundin er eyðileggjandi afl og étur upp þá sem fóðra hana.

Hér hefur í pistlum oft verið vitnað til ýmissa þeirra hugsuða og athafnamanna sem reynt hafa að halda bjartsýnum viðhorfum á lofti. Það er ánægjulegt að sjá vitnað til þeirra á þessari ágætu síðu.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.