c

Pistlar:

8. ágúst 2018 kl. 21:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tré til bjargar heiminum?

Pakistan hyggst planta einum milljarði trjáa á næstu árum og hefur reyndar þegar plantað út 750 milljónum trjáa og þannig útvegað um hálfri milljón manna tímabundna atvinnu. Kína hyggst planta út skógi sem samsvarar Írlandi að stærð og hefur fengið 60 þúsund hermenn í verkið. Indland plantaði út 66 milljónum trjáplantna á aðeins 12 tímum á síðasta ári en ein og hálf milljón manna tók þátt í átakinu. Indversk stjórnvöld hafa heitið því að endurheimta skóga á sem svarar 12% af flatarmáli landsins. Í Afríku eru mörg lönd í átaki sem á að útbúa 8000 kílómetra langan skógarvegg sem á að hjálpa til við að vernda land og hindra uppblástur, meðal annars frá Sahara eyðimörkinni. Ef vel tekst til verður lagt til atlögu við jaðra eyðimerkurinnar sem hefur verið að færa sig út síðustu áratugi. Þessi græni skógarveggur mun ná frá Senegal til Djibouti. Þannig er ætlunin að auka fæðuöryggi fólks á þessu svæði og berjast gegn loftslagsbreytingum. Í Senegal er þegar búið að planta út 11 milljónum trjáa. Í Nígeríu hefur svæði sem svarar 5 milljónum hektara verið endurheimt og það skapar um 20 þúsund manns atvinnu. Ekki er langt síðan undirritaður sagði frá því hér í pistli að ríkisstjórn Nýja-Sjálands vill gera sam­félagið grænna með því að gróður­settar verði á hverju ári 100 milljónir trjá­plantna í landinu. Eitthvað af þessu kann að vera sýndarmennska en alvaran verður stöðugt augljósari. Mikilvægi þess að endurheimta skóga verður ekki ofmetið. Og svo fegrar það lífið en hér fylgir með mynd af fallegum hlyn sem finnst skammt frá heimili pistilskrifara. Tré sem prýðir og gleður.hlynur

Þetta er nefnt til að minna á að það er hægt að snúa við þróuninni - í það minnsta ennþá en talið er að 10 milljarðar trjáa tapist á ári. Það hefur í för með sér að skógar taka upp minna CO2 en aukning koltvísýrings er helsta orsök hlýnunar jarðar. Um leið verður erfiðara að komast af fyrir 1,6 milljarð manna sem treystir á skóga og afurði þeirra sér til lífsviðurværis. Eyðing skóga gerir jörðina viðkvæmari fyrir veðrabrigðum og náttúruhamförum sem víða ógna tilvist fólks. Hugsanlega sjáum við merki þess víða þetta sumar.

Herðum róðurinn í skógrækt

Áður hefur verið vikið að skógrækt og mikilvægi þess að við Íslendingar herðum róðurinn á því sviði. Upptalningin hér að framan er engan veginn tæmandi fyrir áform um víðan heim en margar þjóðir sjá það helst til ráða gegn loftslagsbreytingum að ráðast í skógrækt. Það er ekki víst að það dugi en er þó ábyggilega fljótlegasta og ódýrasta leiðin til þess að sporna við loftslagsbreytingum.

Fyrr á árinu var sagt frá því hér í pistli að könnun sem Gallup gerði fyrir Skógræktina, Skógræktarfélag Íslands og Landssamtök skógareigenda sýndi mjög jákvætt viðhorf landsmanna til skógræktar. Langflestir Íslendingar telja að skógrækt hafi jákvæð áhrif á landið og telja mikilvægt að binda kolefni með skógrækt.

Athyglisvert er að í könnuninni kom fram að ungir Íslendingar eru jákvæðastir fyrir skógrækt og 55 ára og eldri telja skógrækt mikilvægasta fyrir kolefnisbindingu. Ef marka má þessa könnun er mikill og vaxandi stuðningur meðal landsmanna við að rækta skóg til að binda kolefni og hamla þannig gegn loftslagsbreytingum. Nú er það upp á íslensk stjórnvöld að taka til hendinni. Við höfum augljóslega tækifæri til að koma með eftirtektarvert framtak.