c

Pistlar:

15. apríl 2018 kl. 13:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslendingar sameinast um skógrækt

Ný könnun sem Gallup hefur gert fyrir Skógræktina, Skógræktarfélag Íslands og Landssamtök skógareigenda sýnir mjög jákvætt viðhorf landsmanna til skógræktar. Langflestir Íslendingar telja að skógrækt hafi jákvæð áhrif á landið og telja mikilvægt að binda kolefni með skógrækt.
Athyglisvert er að í könnuninni kom fram að ungir Íslendingar eru jákvæðastir fyrir skógrækt og 55 ára og eldri telja skógrækt mikilvægasta fyrir kolefnisbindingu. Ef marka má þessa könnun er mikill og vaxandi stuðningur meðal landsmanna við að rækta skóg til að binda kolefni og hamla þannig gegn loftslagsbreytingum. Jafnframt telja Íslendingar að skógrækt hafi jákvæð áhrif á landið. Þetta kemur ekki á óvart en um mikilvægi skógræktar hefur verið fjallað í nokkrum pistlum á þessum vettvangi. Með fylgir hér mynd eftir Ragnar Axelsson, ljósmyndara Morgunblaðsins, af stærsti skógi lands­ins sem er að vaxa upp á Skeiðar­ársandi. 566966

Fjórföldun skógræktar

Þegar þetta er skoðað er augljóst að víðtækur stuðningur er við hugmyndir Skógræktar ríkisins um að fjórfalda nýskógrækt næstu áratugina. Það væri meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni en slík aukning gæti bundið fjórðung þess sem við losum samkvæmt Kyoto-bókun loftslagssamningsins. Varla þarf að deila um að hugmyndirnar séu arðbær fjárfesting til langs tíma. Hundruð starfa myndu verða til í greininni vítt og breitt um landið.

„Við sýnum fram á að fjórföldun nýskógræktar frá því sem nú er mun strax upp úr árinu 2030 hafa mikil áhrif á nettólosun gróðurhúsalofttegunda og á næstu tveimur áratugum þar á eftir munu þau áhrif tæplega sexfaldast,“ sagði Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðsstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar, í samtali við Fréttablaðið fyrir skömmu. Hún benti á að heildaráhrif skógræktar væru þá um miðja þessa öld um 1,15 milljónir tonna CO2-ígilda sem er fjórðungur af núverandi heildarlosun frá Íslandi sem talin er fram í bókhaldi Kyoto-bókunar loftslagssamningsins. Þetta er því einstakt tækifæri til þess að standa við skuldbindingar okkar.

Ráðast þarf í stórátak

Sigríður Júlía og Arnór Snorrason kynntu rannsóknir sínar fyrir skömmu eins og fjallað var um í Fréttablaðinu. Skógar á landinu binda nú um 400 þúsund tonn af koltvísýringi árlega. Skortur er á skógum en 95 prósentum skóglendis hér á landi hefur verið eytt og um 40 prósent jarðvegs á Íslandi hafa eyðst. Í dag er svo komið að aðeins 0,42 prósent landsins eru þakin ræktuðum skógi. Unnið er að því að ræktaðir og náttúrulegir skógar geti þakið um 4 prósent landsins árið 2040.

Þau Sigríður Júlía og Arnór mátu einnig tekjur af kolefnisbindingu og viðarsölu á móti stofnkostnaði við nýskógrækt. Miðað við þær forsendur sem eru fyrir hendi sem og rauntölur frá skógræktinni eru raunvextir fjárfestingar í nýskógrækt metnir um 3,5 prósent miðað við fjórföldun nýskógræktar á næstu árum. „Að auki eru önnur mikilvæg áhrif, eins og styrking byggðar vítt og breitt um landið, ómetin en við áætlum að við getum fjölgað ársverkum í skógrækt upp í um þrjú hundruð og þá mest á landsbyggðinni,“ sagði Sigríður Júlía.

Sem endranær strandar á fjármögnun. Taka má þó undir að mikilvægt sé að ríki, sveitarfélög, einstaklingar og félagasamtök komi einnig að þessu sem ákveðinni tegund af þjóðarátaki til að ná þessu marki. Út um allan heim eru lönd að ráðast í stórátak á sviði skógræktar og verndunar skóga. Vonandi ekki of seint en engum dylst að þetta er vænleg leið til að grípa hratt inn í það ferli sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.